144. löggjafarþing — 20. fundur,  16. okt. 2014.

opinber fjármál.

206. mál
[14:39]
Horfa

Vilhjálmur Bjarnason (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef nú ýmsar athugasemdir við eignfærslu ýmissa opinberra eigna. Mig langar til þess að spyrja hv. þingmann um hvort … Er þingmaðurinn að hlusta á mig? (SBS: Fyrirgefðu.) Ég ætlaði að spyrja hv. þingmann að því hvort hún telji að hægt sé að eignfæra ýmsar opinberar eignir sem hafa undarlegt — hvað eigum við að segja — efnahagslegt verðmæti. Ég á t.d. við leikhús. Verðmæti leikhúss er ekki hægt að meta út frá öðru en byggingarkostnaði, það er ekki hægt að meta það út frá aflahæfi þess.

Mig langar til að spyrja hv. þingmann hvaða það tilgangi þjónar að færa til eignar ýmsar opinberar eignir sem ekki hafa markaðsverð. Það sem máli skiptir í opinberum fjármálum, í aga opinberra fjármála, er í rauninni greiðslugrunnurinn og uppsöfnun skuldbindinga sem verða til utan efnahagsreiknings, eins og hv. þingmaður nefndi.

Ég get ekki séð að það skipti sköpum hvort ýmsar opinberar eignir eru eignfærðar og þaðan af síður að hægt sé að jafna saman opinberum rekstri og einkarekstri vegna þess að hann er algjörlega ólíkur. Í einkarekstri eru eignir þess eðlis að þær eru endurseljanlegar en fæstar opinberar eignir hafa markaðsvirði. Það þjónar því ekki nokkrum tilgangi að eignfæra þær. Þær geta hins vegar safnað á sig skuldbindingum, t.d. eftirlaunaskuldbindingum. Ég skil kannski ekki opinber fjármál betur en þetta en ég ætla að láta hér staðar numið.