144. löggjafarþing — 20. fundur,  16. okt. 2014.

opinber fjármál.

206. mál
[16:24]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við höfum verið sökuð um það að vera með lausung og lausatök á ríkisfjármálunum í gegnum tíðina. Sumir hafa sagt að það sé ekki nema von vegna þess að við séum með gjaldmiðil sem sveiflast svo mikið og erfitt sé að gera áætlanir langt fram í tímann þess vegna og að auðvelt sé að stilla óskynsamlegar ákvarðanir af með gengisfellingu o.s.frv.

Á málþingi sem haldið var til heiðurs Jónasi Haralz, hann hefði orðið 95 ára gamall um þessar mundir, voru tveir okkar fremstu hagfræðingar sem fluttu þar erindi og annar þeirra talaði m.a. um eitt af þeim góðu gildum sem eru undir þessu frumvarpi, sem er stöðugleiki og taldi hann ómögulegt í raun að lofa stöðugleika á Íslandi á meðan við værum með krónuna.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvað honum finnst um slíkar fullyrðingar og hvort hann sjái fyrir sér að við getum lofað stöðugleika með svo litlum gjaldmiðli.