144. löggjafarþing — 20. fundur,  16. okt. 2014.

opinber fjármál.

206. mál
[16:25]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Hér er auðvitað komið út í mjög stóra umræðu þegar fjallað er um gengið, krónuna og stöðugleikann. Staðreyndin er sú að það getur verið nauðsynlegt að fá gengið til þess að sveiflast ef aðstæður hafa breyst í utanríkisviðskiptum eða í efnahagslífinu að öðru leyti.

Síðan geta menn valið það að leggja alla áherslu á gengisstöðugleikann, en þá fá menn óstöðugleikann á einhverjum öðrum sviðum. Hann getur birst í atvinnustiginu. Hann getur birst í því að atvinnuöryggi hverfur þegar herðir að. Í mínum huga er aðalatriðið hér að við leggjum áherslu á þá leið sem tryggir störf og lágmarkar erfiðleikana þegar eitthvað bjátar á. Krónan hefur að mínu áliti hjálpað okkur við að komast út úr þessum erfiðleikum. Það er óumdeilanlegt að (Forseti hringir.) við höfum bjargað mörgum störfum með því að vera með sjálfstæðan gjaldmiðil.