144. löggjafarþing — 20. fundur,  16. okt. 2014.

viðvera heilbrigðisráðherra í umræðu um sölu áfengis.

[16:38]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég finn mig knúinn til að bregðast við orðum hv. þm. Brynjars Níelssonar hvað þessa umræðu varðar. Þetta er ekki ný ósk, hún hefur verið frá upphafi. Það er ekki málþóf að ítreka þessa ósk þegar ekki er orðið við henni. Hæstv. ráðherra er ekki hérna, það er staðreynd, þannig að við erum ekki að sóa miklum tíma í viðræðum við hann ef hann er ekki einu sinni á svæðinu.

Sömuleiðis hvað varðar þau orð hv. þingmanns, að þetta varði ýmsa aðra málaflokka en heilbrigðismál, þá áttar hv. þingmaður sig kannski ekki á því að heilbrigðishlutinn af málinu er þungamiðja deilunnar, þungamiðja ágreiningsins. Ég held ekki að neinn sé á móti þessu máli nema vegna heilbrigðissjónarmiða. Það er það eina sem fær mig til að hugsa í aðra átt, ef ég á að segja alveg eins og er. Ég væri fullkomlega hlynntur þessu máli og ég held að allir væru hlynntir þessu máli (Forseti hringir.) ef ekki væri fyrir efasemdir á heilbrigðissviði. Þess vegna er fullkomlega eðlilegt að hæstv. heilbrigðisráðherra (Forseti hringir.) sé hér og ræði þetta við okkur.