144. löggjafarþing — 20. fundur,  16. okt. 2014.

viðvera heilbrigðisráðherra í umræðu um sölu áfengis.

[16:44]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Ég er mjög hissa yfir þessari ræðu hv. þm. Guðlaugs Þórs Þórðarsonar. Ég heyri ekki betur en að honum finnist þingmannamál eitthvað minna merkileg en mál sem koma frá hæstv. ríkisstjórn. Ég er ekki sama sinnis. Hæstv. heilbrigðisráðherra hefur sjálfur talað um að þetta sé lýðheilsumál.

Það má gjarnan snúa þessu við og segja sem svo: Eigum við að ræða svo stórt lýðheilsumál að hæstv. ráðherra fjarstöddum? Hefði hann ekki óskað eftir að fá að vera hér? Ef málið verður samþykkt þarf að taka á vandamálum og aukaverkunum sem því fylgja og þau eru langflest einmitt á heilbrigðissviði, á sviði hæstv. heilbrigðisráðherra. Hann þarf að vera hér og heyra hvað við höfum að segja um málið.