144. löggjafarþing — 20. fundur,  16. okt. 2014.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

17. mál
[17:10]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta er að verða mjög mögnuð umræða þar sem mikið er sagt „mér finnst“, „ég tel“ o.s.frv. og algerlega án tillits til þeirra upplýsinga sem liggja fyrir, rannsókna sem gerðar hafa verið, eins og þær séu virtar að vettugi.

Hv. þm. Pétur H. Blöndal er mjög upptekinn af því að ekki sé talað niður til hans. Þá ætti hann sjálfur að hætta að tala niður til opinberra starfsmanna eins og hann gerir og er það ekki í fyrsta sinn sem hann gerir það.

Ég vil spyrja hv. þingmann: Telur hann skipta máli hve mikils áfengis er neytt í samfélaginu?

Í öðru lagi: Telur hann vera samband á milli áfengisneyslu annars vegar og heilbrigðisástands hins vegar, að áfengisneysla hafi áhrif á heilbrigði okkar sem þjóðar?

Þá finnst mér furðulegt að heyra það sagt hér í ræðustól að skorpulifur eða sjúkdómar tengdir áfengi séu fórnarkostnaður til að losna við fylliríin. Við höfum ekkert losnað við nein fyllirí á Íslandi, það höfum við ekki gert. Áfengisneysla hefur farið mjög vaxandi í seinni tíð, á undanförnum árum, og allar líkur eru taldar vera á því að neyslan muni enn aukast ef aðgengi verður aukið að áfengi. Þetta sýna allar skýrslur og rannsóknir sem hafa verið gerðar á þessum málum. Áður en menn segja mikið meira „mér finnst“ og „ég tel“ o.s.frv. finnst mér ekki úr vegi að óska eftir því að þeir sem sitja á löggjafarsamkundunni reyni að styðja mál sitt rökum og hreki þá allar þær rannsóknir sem gerðar hafa verið og eiga að vera undirstaðan í umræðu um þetta mjög svo alvarlega mál.