149. löggjafarþing — 20. fundur,  16. okt. 2018.

forvarnir.

[14:21]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég verð að viðurkenna að mér finnst pínulítið erfitt að ræða forvarnir sérstaklega, alla vega í vímuefnamálum, án þess að ræða vímuefnamál í aðeins stærra samhengi. Ég ætla samt að reyna. Forvarnir eru aðferðafræði sem samfélagið allt virðist sem betur fer vera til í og Alþingi er alveg til í, þ.e. ef það getur fjármagnað þann málaflokk almennilega, eitthvað sem ég læt bíða annarrar umræðu. Ég hef fylgst með vímuefnamálum þó nokkuð mikið síðan á táningsaldri og mér hefur alltaf fundist samband samfélagsins við vímuefni rosalega klikkað, það er rosalega eitrað og skrýtið. Ég hef upplifað það bæði sjálfur og af fólki sem ég þekki sem hefur verið í neyslu að það trúir ekki yfirvöldum vegna þess að yfirvöld sýna ekki trúverðugleika í málaflokknum í heild sinni. Það er alveg sjálfstætt vandamál.

Mér skilst að þetta hafi batnað mjög mikið síðustu ár. Ég man hvernig forvarnir voru þegar ég var táningur, þær voru ekki góðar að mínu mati, sumir kölluðu þetta auglýsingar fyrir vímuefni, vegna þess að það vantaði trúverðugleika. Það vantaði að krökkum væri sagt satt og rétt frá. Umræðan einkenndist af mikilli geðshræringu og upphrópunum sem er ekki sannfærandi fyrir fólk á unglingsaldri sem er í miðjum klíðum við að efast um nákvæmlega allt í sínu samfélagi. Það er það sem við gerum fyrst og fremst þegar við erum unglingar, við efumst og storkum ríkjandi hugmyndum. Þegar slíkt hugarfar mætir einhverju sem er ekki trúverðugt eða er misvísandi getur illa farið.

Eins og ég segi skilst mér að þetta hafi batnað mjög mikið síðustu ár vegna þess að fólk hafi farið að taka upp gagnreyndar aðferðir, þ.e. að athuga hversu vel aðferðin virkar og spyrja sig að því loknu hvað sé best til þess að sannfæra krakka um að í það minnsta bíða með fiktið og helst auðvitað sleppa því. Frumskilyrðið er að við höldum okkur við gagnreyndar aðferðir og látum ekki gjörðir okkar stjórnast af tilfinningahita hverju sinni. Þetta er vísindaleg spurning að miklu leyti og við verðum að koma fram með það í huga.