149. löggjafarþing — 20. fundur,  16. okt. 2018.

forvarnir.

[14:48]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka kærlega fyrir þá umræðu sem hefur verið hér um þennan málaflokk, forvarnir. Eitt er ég alveg með á hreinu, ég er ekkert hissa á því hvað ég skrifaði ræðuna oft og strokaði hana oft út. Það er eiginlega niðurstaðan hjá mér vegna þess að þetta er þvílíkur hafsjór af vandamálum, ef við getum sagt sem svo, sem við glímum við þegar við tölum um forvarnir. Það er kannski ekki rétt að kalla það vandamál, heldur verkefni, þótt vandamálið sé innan um og saman við. Það er merkilegt og þarft verkefni í framtíðinni sem við þurfum að glíma við.

Það er eitt og tvennt jafnvel sem hefur komið fram gegnumsneitt í umræðunni, þ.e. að þetta er í raun og veru í stóru myndinni ekki átaksverkefni heldur langtímavinna eða langtímaverkefni. Þá er náttúrlega verið að tala um frá vöggu til grafar. En auðvitað eru líka aðsteðjandi brýn verkefni sem ég hef mikið fjallað um og rætt við ráðherrann og spurt mikið um, það er staðan í meðferðargeiranum. Við höfum talað um og það hefur oft komið fram, kom fram í ræðu hérna áðan, að það eru um 600 manns á biðlista inn á Vog og hvað þurfi að gera til að bregðast við því. Það þarf að bregðast við með auknu fjármagni.

Eins stendur upp úr hvað það sparar ríki mikið að standa vel að forvörnum. Það kostar peninga að spara pening, það er bara þannig. Það á við um þetta eins og annað. (Forseti hringir.) Því brýni ég og hvet ráðherrann til dáða (Forseti hringir.) að einhenda sér í að efla forvarnir, svo einfalt sem það er.