149. löggjafarþing — 20. fundur,  16. okt. 2018.

umboðsmaður barna.

156. mál
[16:14]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka kærlega fyrir þessa tillögu eða það sem hæstv. forsætisráðherra er að leggja fram. Mig langar til að fá forsætisráðherra til að skýra það fyrir mér og öðrum hvað þetta þýðir nákvæmlega. Ég er talsmaður barna fyrir þingflokk Pírata og allir þingflokkar eru með sína talsmenn barna. Við erum búin að hitta umboðsmann barna og UNICEF, fólk sem starfar á Íslandi á vettvangi Sameinuðu þjóðanna með það að meginmarkmiði að fylgjast með að innleiðingu sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi barna sé framfylgt. Ég hef verið að skoða réttindi barna og sér í lagi réttindi barna til náms við hæfi og hef tekið eftir því að það er svo margt í lögunum og svo margt í reglunum sem nær ekki lengra. Við erum með barnasáttmála og þar er talað um réttindi; við erum með barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins og þar er talað um réttindi til náms. Við erum með lög um leikskóla, grunnskóla, framhaldsskóla o.s.frv. Til grunnskólans hef ég verið að horfa því að börnin mín eru þar. Við erum með reglugerð um réttindi barna með sérþarfir sem hæstv. forsætisráðherra skrifaði undir sem menntamálaráðherra. Og réttindunum er vel upp stillt þegar maður fer að skoða þetta í kerfinu. Ég talaði við þessa aðila, umboðsmann barna og UNICEF, og svo talaði ég við Sjónarhól, regnhlífarsamtök sem eru að skoða réttindi barna með fötlun og alls konar önnur einkenni, ADHD o.fl., og aðstoða fólk í gegnum kerfið. Alltaf rekst maður á það sama, það vantar að innleiða þetta, þ.e. að þessu sé framfylgt. Réttindum barna, alla vega til náms við hæfi, er vel stillt upp í aðalnámskrá og öllum öðrum réttarheimildum sem ég var að nefna, en það vantar að innleiða þetta.

Eitt sem kom mjög skýrt fram hjá öllum þessum aðilum var þörf fyrir einhvers konar stefnumótun sem tekur þetta saman. (Forseti hringir.) Að hvaða leyti þýðir þetta heildstæða stefnumótun um innleiðinguna?