149. löggjafarþing — 20. fundur,  16. okt. 2018.

heilbrigðisþjónusta o.fl.

185. mál
[19:33]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Virðulegur forseti. Hér erum við með til umfjöllunar frumvarp til laga um breytingu á heilbrigðisþjónustu og breytingu á sjúkratryggingum. Yfir um og allt í kring svífa svo lögin um málefni aldraðra. Þessar lagabreytingar eru kannski ekki meiri háttar í hinu stóra samhengi og einhver myndi segja að hér væri um formsatriði að ræða og að það sé verið að skerpa á þáttum sem óljósir voru áður eða ekki skilgreindir í lögum og fella orðalag lagatextans að þeim hugtökum sem við notum í heilbrigðiskerfinu eða sjúkratryggingakerfinu. Hæstv. ráðherra benti áðan á að í raun væri verið að festa í lög eitthvað sem menn hefðu tíðkað í nokkurn árafjöld.

Ég fagna þeim breytingum sem gerðar hafa verið á þessum texta frá því að við fjölluðum um hugmyndina í velferðarnefnd á fyrra þingi, þ.e. að einstaklingar yngri en 67 ára geti verið í dvalarrými jafnt og í hjúkrunarrými og auk þess í dagdvöl. Þetta eru viðkvæm atriði og ég tek undir með hv. þm. Bryndísi Haraldsdóttur og hv. þm. Ólafi Þór Gunnarssyni hvað þetta snertir. Þetta eru viðkvæm atriði og við getum hugsanlega staðið frammi fyrir því þegar um yngra fólk er að ræða að fólk þurfi að flytja búferlum, eftir aðstæðum að rjúfa búsetu þar sem það var áður búsett og flytja sig. Það kann að verða þannig.

Varðandi dagdvalirnar er þetta náttúrlega knýjandi með yngri einstaklinga eins og komið hefur verið inn á, varðandi alzheimersjúklingana okkar eða þá sem eru haldnir minnissjúkdómum. Það er brýnt að það sé mjög markviss þjónusta og að menn fái að nýta krafta sína eins og kostur er við þar til gerðar aðstæður. Þar ræður kannski ekki eingöngu aldurinn.

Hv. þm. Ólafur Þór Gunnarsson kom aðeins inn á þetta með inntökuteymin varðandi dagdvalirnar. Ég tek undir með honum varðandi það, dagdvalarúrræðin eru gríðarlega mikilvæg og þurfa að vera virk. Þau þurfa að koma til þegar þörfin skapast því að þetta eru oftast einstaklingar sem búa heima og þurfa þjónustuna tafarlaust eða tafarlítið til að hún nýtist sem best. Það á auðvitað einnig við um fólk sem er að koma af sjúkrastofnunum. Það er bara áhyggjuefni að skrifræðið megi ekki bera ofurliði þessa ágætu þjónustu. Það verður spennandi að fást við þetta í nefndarstarfinu.

Fátt er hafið yfir allan vafa og það hefur einmitt komið fram. Hagsmunasamtök fatlaðra brugðust við og töldu að þarna væri hugsanlega vegið að hugmyndafræðinni um notendastýrða persónulega aðstoð sem auðvitað var ekki hugmyndin. Það hefur nú verið skýrt, vel fyrir mína parta, enda er á því hnykkt í greinargerð að stofnanavist eigi ekki að vera það fyrsta sem við hugsum heldur eigi að vera aðrir kostir. Við þurfum að leggja miklu meiri áherslu á það í öllu okkar starfi á komandi misserum þegar við ræðum um heilbrigðisþjónustu almennt og heilbrigðisþjónustu fyrir eldra fólk.

Mig langar rétt í blálokin að fara þess á leit við hæstv. ráðherra, ef hún kemur að lokum í ræðustól, að fjalla svolítið um mat á kostnaði. Hér kemur fram að þetta muni ekki hafa aukin útgjöld í för með sér fyrir ríkissjóð og heldur ekki fyrir einstaklinginn sem nýtir sér dagdvalarrými, það verði ekki kostnaðarsamara fyrir viðkomandi að nýta sér þessa kosti. Það kemur örlítið fram í tölulegum upplýsingum, en það er hafið yfir allan vafa að ekki sé verið að taka meiri gjöld fyrir þessa þjónustu.

Svo vænti ég þess að við eigum bara gagnlegt samtal í velferðarnefnd um þetta frumvarp og getum afgreitt það skjótt og með bros á vör.