151. löggjafarþing — 20. fundur,  13. nóv. 2020.

kjötrækt.

97. mál
[13:45]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Birni Leví Gunnarssyni fyrir framsögu um mikilvægt umhverfismál sem Píratar mæla hér fyrir. Píratar huga nefnilega að framtíðinni, þeir hugsa í lausnum og þeir hugsa um umhverfið. Tillagan gengur einfaldlega út á það að við kynnum okkur stöðu mála í þessu mikilvæga umhverfismáli og leggjum okkar af mörkum við framþróun í því að innleiða nýja tækni til að tryggja heilbrigðara líf í framtíðinni.

Eins og hv. þm. Björn Leví Gunnarsson kom inn á þá eru umhverfisáhrifin helsti kostur þess að rækta kjöt til manneldis umfram dýrarækt. Kjötrækt sendir 78–96% minna af gróðurhúsalofttegundum frá sér en hefðbundin dýrarækt og notar 99% minna landrými og 82–96% minna af vatni. Þetta eru gríðarlega háar tölur, gríðarlega mikilvægur munur, vegna þess að við vitum að dýrarækt til manneldis er einn stærsti þátturinn í vexti gróðurhúsalofttegunda í heiminum í dag.

Við vitum líka að aukin sókn í grænkerafæði og fjölgun einstaklinga sem einungis neyta slíks fæðis hefur áhrif. Þetta yrði einungis eitt lóð á þær vogarskálar að auðvelda okkur að færa okkur yfir í kjötlausan lífsstíl, hverju og einu okkar.

Mig langar að minnast á Sir David Attenborough sem hefur lagst eindregið á sveif með okkur sem viljum minnka dýraneyslu. Hann hefur kallað eftir því að fólk minnki kjötneyslu í mjög flottri og mikilvægri heimildarmynd sem nálgast má á streymisveitunni Netflix sem heitir A life on our Planet, eða Líf á plánetunni okkar. Þar talar hann einmitt um hversu plássfrek kjötframleiðsla er, dýrarækt til manneldis. Samkvæmt matvæla og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna þarf tæplega helming allrar uppskeru heimsins til að fæða dýr til manneldis og eins og hv. þingmaður kom inn á áðan eru þetta fleiri milljarðar dýra á hverju ári sem eru framlag til manneldis. Þetta gætum við gert með miklu minna kolefnisfótspori, miklu minna af vatni og með miklu minna landsvæði ef við myndum taka þátt í framþróun vísindanna. Við vitum líka að með vaxandi mannfjölda mun verða vaxandi eftirspurn eftir kjöti til manneldis. Þar af leiðandi er eftir engu að bíða.

Við skulum taka framtíðina í okkar hendur og vera einu sinni með í framþróun hennar.