152. löggjafarþing — 20. fundur,  17. jan. 2022.

heimilisuppbót almannatrygginga.

[15:27]
Horfa

félagsmála- og vinnumarkaðsráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (Vg):

Hæstv. forseti. Hér nefnir hv. þingmaður nauðsyn þess að við tökum skerðingar til skoðunar og ég vil taka innilega undir þau orð hv. þingmanns. Það er í alveg skýrt í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar að við ætlum í endurskoðun á kerfinu. Þar koma skerðingarnar auðvitað inn. Ég hef lýst því áður yfir hér að ég tel að þetta sé eitt af mikilvægustu málunum sem eru á mínu borði og vil nálgast þessa kerfisbreytingu með þeim hætti. Á sama tíma og við reynum að koma sem flestum út á vinnumarkaðinn sem hafa skerta starfsgetu þá þurfum við að tryggja að þær bætur sem berast því fólki sem ekki getur unnið fyrir sér séu þannig að fólk nái endum saman. Þetta eru grundvallaratriðin í því sem við þurfum að horfa til á næstu mánuðum í þeirri endurskoðun sem stendur fyrir dyrum.