Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 20. fundur,  19. okt. 2022.

atkvæðagreiðsla um skýrslubeiðni.

[15:37]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Virðulegur forseti. Ég ætla nú aðallega að óska forseta alls hins besta í þeirri atkvæðagreiðslu sem við ætlum að gera aðra tilraun til að halda. Í gær var ekki mannskapur til að við gætum verið með atkvæðagreiðslu um skýrslubeiðnina sem er hér fyrst á dagskrá og munaði væntanlega töluvert um að ekki einn einasti ráðherra mætti í salinn. Metfjöldi ráðherra í íslensku ríkisstjórninni þýðir að það er dálítið erfitt að halda atkvæðagreiðslu þegar þau skrópa öll. En hér tínast þau inn eitt af öðru með sömu viðveruskyldu og við hin þótt ekki sýni þau það alltaf í verki. Ég ætla bara að hvetja forseta áfram til dáða og vonast til þess að hann nái að halda betri stjórn á stjórnarliðinu þegar kemur að atkvæðagreiðslum í framtíðinni, svo við stöndum ekki frammi fyrir þeirri fáránlega vandræðalegu uppákomu sem varð hér í gær að hætta þurfti við einfalda atkvæðagreiðslu vegna þess að fólk var einhvers staðar úti að frílysta sig.