Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 20. fundur,  19. okt. 2022.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

326. mál
[16:32]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fagna undirtektum við frumvarpið almennt séð og við það sjónarmið að við þurfum að dreifa áhættunni betur. Ég held að það sé mikið atriði fyrir vel fjármagnað lífeyrissjóðskerfi sem er að verða rúmlega tvöföld landsframleiðsla að stærð, einfaldlega vegna þess, eins og þingmaðurinn rakti, að fjárfestingarkostir hér innan lands geta verið takmarkaðir. En að því gefnu að vel takist til við að stýra eignasafninu og dreifa áhættunni, eins og ég nefni hér, þá hef ég ekki áhyggjur af framtíðarskatttekjunum, enda færu hagsmunir ríkisins sem innheimtuaðila skattsins í framtíðinni í þessu efni algerlega saman með hagsmunum lífeyrisþeganna sem vænta þess (Forseti hringir.) að fá greiðslurnar í framtíðinni.