Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 20. fundur,  19. okt. 2022.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

326. mál
[17:13]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka þingmanni fyrir andsvarið. Maður verður að líta á þetta frá tveimur hliðum. Það er ekkert tryggt í framtíðinni, við þekkjum það. Við höfum bankahrunið sem viðmið. Þar töpuðust, uppreiknað í dag, örugglega yfir 1.000 milljarðar, bara í skatttekjum. Það er enginn sem segir að það muni ekki ske í framtíðinni en það ætti alla vegana að miða við að við skattleggjum í nútíðinni, þá eru þeir skattpeningar alla vega öruggir, þeir tapast ekki. En því miður má alveg reikna með því að ákveðinn lífeyrir tapist frá lífeyrissjóðunum. En við erum að tala um að ef það er búið skattleggja þetta einu sinni þá sé það ekki skattlagt aftur. Við getum aldrei ráðið því hvort ávöxtunin verður hærri eða lægri og það gildir þá nákvæmlega sama í framtíðinni. Það verður enginn munur í sjálfu sér. Ég get ekki séð að það verði neinn munur í framtíðinni hvort það er góð eða slæm ávöxtun. Við getum ekki spáð fyrir um það. Ég tala nú ekki um þegar við erum komin með allar áhættuþætti inn í; stríð í heiminum, gjaldmiðla, orkukreppu og ég veit ekki hvað sem getur sett strik í reikninginn. Þá erum við alltaf að gambla á markaði. Markaðurinn er áhættufjárfesting. Hann er hálfgert spilavíti, það er bara staðreynd. Og við erum þarna með skattpeninga sem við gætum nýtt núna fyrir fólk sem á ekki til hnífs og skeiðar í dag, vegna þess að við lifum í nútímanum. Við vitum ekkert hvernig framtíðin verður en við vitum hvernig nútíminn er og við vitum hvað við þurfum að gera í nútíðinni til að fólk geti lifað með reisn.