Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 20. fundur,  19. okt. 2022.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

326. mál
[18:10]
Horfa

Birgir Þórarinsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Ég þóttist vita að hann hefði góða þekkingu á norska olíusjóðnum, sem er náttúrlega stærsti einstaki fjárfestingarsjóður í heiminum, eins og hv. þingmaður nefndi réttilega. Þar er lið valinkunnra sem stúderar það dag og nótt hvar best sé að ávaxta fé sjóðsins. Það er nákvæmlega það sem við eigum að gera kröfu um hér varðandi lífeyrissjóði okkar, að það ríki mikil fagmennska í því að ákveða hvernig best sé að að ávaxta fé sjóðanna, sem eru náttúrlega orðnir gríðarlega stórir hér á landi. Það hafa verið gerðar greiningar. Mig minnir að það hafi verð árið 2018 sem gerð var greining á ávöxtun sjóðanna hér á landi, hvernig þeir stæðu sig, og það kom á óvart í þeirri greiningu að ávöxtun sjóðanna var afskaplega misjöfn. Hún var frá því að vera 6,6% niður í 1,25%, minnir mig, þegar við erum að tala um þessa lögbundnu ávöxtunarkröfu upp á 3,5%. Þetta sýnir að sjóðirnir standa sig misjafnlega vel þegar kemur að því að ávaxta féð og fjárfesta í skuldabréfum eða öðru slíku. Þess vegna held ég að sé afar mikilvægt að í þessu frumvarpi var lögð áhersla á og sett ákvæði um að auka gagnsæið gagnvart hinum almenna sjóðfélaga vegna þess að það er gríðarlega mikilvægt að fólk viti nákvæmlega hvernig hlutirnir eru og geti tekið upplýstar ákvarðanir og annað slíkt. Auk þess ætti að mínum dómi að auka valfrelsi fólks þegar kemur að því að velja sér sjóði.