Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 20. fundur,  19. okt. 2022.

staðfesting ríkisreiknings 2021.

327. mál
[18:48]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Við glímum við það á hverju ári að áætlanir í fjárlögum standast ekki á einn eða annan hátt. Hérna er þó nokkuð mikið frávik frá fjárlögum og meira að segja frá fjáraukafrumvarpi, sem er svo sem að einhverju leyti eðlilegt. Við gerum áætlanir og þær standast aldrei 100%. Það sem ég tel hins vegar vera svolítið ámælisvert er hvernig við erum einhvern veginn að elta þjóðhagsspá sem er einnig ónákvæm. Til að byrja með erum við með ónákvæma þjóðhagsspá sem fjárlögin og fjármálaáætlunin reynir að elta. Sú áætlun er líka ónákvæm og þá erum við með tvöfaldri ónákvæmni að reyna að hitta á réttu tölurnar.

Þá langaði mig til að velta upp með hæstv. ráðherra hérna hvort það væri ekki ráðlegra — þó að við horfum á þjóðhagsspá og veltum fyrir okkur fram og til baka hvernig horfur á næsta ári eða tveimur geta gengið, nær ekki mikið lengra en það — að ríkisfjármálin hætti að reyna að hitta á þjóðhagsspána og nýti einfaldlega langtíma meðalhagvöxt, að bæði útgjöld og tekjur miðist við meðalþróun á efnahagskerfinu til lengri tíma? Það þýðir að eitthvert árið hittum við ekki og hagvöxturinn verður langt umfram eða langt undir. Það skiptir ekki máli til lengri tíma. Þar kemur stöðugleikinn inn. Þar erum við alltaf á meðaltalinu og ef við græðum eitt árið umfram það sem var búist við þá fer það bara til hliðar fyrir hin árin sem við hittum í ranga átt. (Forseti hringir.) Væri það ekki betri leið? Þá getum við fjarlægt í rauninni eina ónákvæma mælingu úr þessu skotmarki okkar sem við erum að reyna að hitta á með fjárlögum og kannski fengið aðeins nákvæmari niðurstöðu.