Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 20. fundur,  19. okt. 2022.

staðfesting ríkisreiknings 2021.

327. mál
[18:54]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, það er alveg rétt að áramótin eru ekki úrslitaþáttur í þessu enda erum við með svigrúm til þess að færa fjárheimildir á milli sem ekki hafa nýst.

En ég hef ekki enn þá komið inn á annan þátt sem skiptir ekki síður máli í þessu. Það er hlutverk ríkisfjármálanna í hagstjórnarlega samhenginu. Í því efni getum við t.d. nefnt að við ákváðum um mitt þetta ár, vegna vaxtahækkana Seðlabankans og hættunnar á ákveðinni ofhitnun í hagkerfinu, að auka aðhaldsstigið í fjárlagagerðinni vegna 2023. Ef við værum alltaf að vinna á meðaltali værum við í raun bara búin að yfirgefa það hlutverk að skipta máli. Ef við værum alltaf að láta útgjalda- og tekjuhliðina fylgja einhverjum langtíma meðaltölum værum við í raun og veru að segja: Við ætlum að sigla í gegnum hagsveifluna, bara leyfa henni að ganga yfir ríkisfjármálin og hagkerfið heilt yfir.

Við sumar aðstæður er ekki annað hægt (Forseti hringir.) en að skera niður, halda aftur af útgjöldum. Við aðrar aðstæður þarf jafnvel að fara í tekjuöflun. Stundum vilja menn lækka skatta til að örva. Ég er á því að þetta eigi að gerast með þeim hætti sem við höfum gert.