154. löggjafarþing — 20. fundur,  25. okt. 2023.

Störf þingsins.

[15:28]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Feðraveldið, eða, með leyfi forseta, eins og var sagt í gær úr munni ansi margra: Fokk feðraveldið. Þetta er pínulítið flókið hugtak, þetta er pólitískt hugtak, feðraveldið. Það hefur svo sem ákveðna orðabókarskilgreiningu og allt þar fram eftir götunum sem fólk túlkar á einn veg og annan. Sumir oftúlka, sumir vantúlka en þegar manneskja lýsir tilfinningum sínum á þennan hátt, fokk feðraveldið, þá lýsir það ákveðinni meiningu, meiningu sem er stundum erfitt að skilja þegar maður hlustar á þau orð. Þegar ég reyni að skilja þessi orð þá get ég t.d. borið það saman við störf þingsins, fyrst við erum nú einu sinni í liðnum störf þingsins. Hér á þingi búum við við ákveðið skipulag á þingstörfunum sem gerir alls ekki ráð fyrir fjölskyldulífi, bara alls ekki, gerir í rauninni ráð fyrir því að það sé einhver heimavinnandi og hérna geti þingmenn verið fram eftir kvöldum alla daga og sinnt þingstörfum, sem er ekki hægt í nútímasamfélagi. Samt er fyrirkomulagið þannig. Þetta er ákveðin arfleifð þess að hérna voru einfaldlega bara þingmenn sem voru með heimavinnandi aðstoð í rauninni til að sinna öllum öðrum störfum heimilisins. Það er ekki þannig í dag, langt því frá, þannig að þó að kannski ekki allir karlmenn og ekki allir feður o.s.frv. — að sjálfsögðu, það er enginn að reyna að segja neitt svoleiðis, þá búum við samt enn þá við þetta skipulag. Þetta er arfleifð þess fyrirkomulags sem við þurfum einhvern veginn að þola af því að þannig hefur það alltaf verið og það er þegar allt kemur til alls feðraveldið. Þannig að út frá þeim forsendum þá geri ég þau orð að mínum: Fokk feðraveldið.