154. löggjafarþing — 20. fundur,  25. okt. 2023.

Störf þingsins.

[15:31]
Horfa

Orri Páll Jóhannsson (Vg):

Virðulegi forseti. Það er gaman þegar skólahópar af öllum stærðum og gerðum heimsækja þinghúsið. Ég var svo lánsamur að fá að hitta hóp nemenda úr unglingadeild og alþjóðadeild eins grunnskólans hér í þinghúsinu í morgun. Fyrir framan málverk Gunnlaugs Blöndal af þjóðfundinum 1851, sem hangir í forsal Alþingis, voru nemendurnir spurðir hvort þeim þætti eitthvað skrýtið við myndina. Þau voru ekki lengi að átta sig á því; á henni er ekki ein einasta kona.

Í gær upplifðum við heimssögulegan viðburð þegar konur og kvár alls staðar á landinu fóru í verkfall. Ætla má að um þriðjungur þjóðarinnar hafi tekið þátt og því má slá föstu að verkfallið hafi haft áhrif á allt samfélagið. Til þess var jú leikurinn gerður, að draga fram hið augljósa; að án kvenna og kvára er samfélagið ekki starfhæft. Þeirra störf eigum við að meta að verðleikum. Og á meðan konur og kvár og einhverjir karlar fjölmenntu á Arnarhól dingluðum við þrettán karlar, þingmenn og ráðherrar, hér í þingsalnum í dagskrárliðnum óundirbúnum fyrirspurnum. Það var eins og afturhvarf til fortíðar. Jafn sögulegur viðburður og sá sem átti sér stað á Arnarhóli í gær var, þá hlýtur hann að hafa haft þau áhrif á okkur öll að við tökum nú höndum saman og vinnum gegn ólíðandi kynjamisrétti á íslenskum vinnumarkaði, þar sem konur af erlendum uppruna eru í verstu stöðunni, og ráðumst af öllu afli gegn þeim faraldri sem ofbeldi í garð kvenna er.

Unglingarnir sáu strax hvað var skakkt við myndina af þjóðfundinum 1851. Þau eiga það inni hjá okkur að við gerum allt hvað við getum til þess að sporna gegn ójafnræðinu sem konur eru beittar. Áfram stelpur. (Gripið fram í: Heyr, heyr. )