154. löggjafarþing — 20. fundur,  25. okt. 2023.

Störf þingsins.

[15:33]
Horfa

Dagbjört Hákonardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Við getum verið gríðarlega stolt af því öfluga kvennaverkfalli sem fram fór í gær um allt land, þökk sé framlagi skipuleggjenda sem hefur verið á heimsmælikvarða. Athyglin utan úr heimi hefur enda ekki látið á sér standa, eðlilega, því við stærum okkur af því að vera fremst í flokki og það er íslenskum femínistum að þakka. Til þess að ná árangri í jafnréttismálum þarf þverpólitíska sátt sem endurspeglar þær skoðanir ríkisstjórnar að hún viðurkenni að þessi vandi sé til staðar í þessu þjóðfélagi og að það þurfi að tækla hann með öllum tiltækum ráðum.

Forseti. Ríkisstjórnin býr ekki yfir þessari sátt. Hæstv. fjármálaráðherra gefur t.d. rautt ljós á frekari launahækkanir og aðgerðir í þágu jaðarsettra og fjárlagagerðin ber þess ekki beinlínis merki að það sé verið að ráðast á aldagamalt kynjalaunamisrétti. Hæstv. forsætisráðherra hefur svo það að segja í kjölfar kvennaverkfallsins að það sé allt útlit fyrir að fullu jafnrétti verði náð árið 2030. Telur hæstv. forsætisráðherra að það sé eitthvert útlit fyrir að þessi ríkisstjórn ætli sér að koma í veg fyrir, með öllum tiltækum ráðum, og bæta konum þá ólaunuðu umönnunarábyrgð sem þær hafa axlað yfir ævina og munu gjalda fyrir þegar þær komast á lífeyrisaldur? Ætlar löggjafarvaldið eitt og sér að útrýma kynbundnu ofbeldi gegn konum og kvárum og sjá til þess að karlar taki þriðju vaktina og axli ábyrgð á ólaunuðum heimilisstörfum og umönnun fjölskyldumeðlima?

Forseti. Þetta eru einkennileg skilaboð frá forsætisráðherra sem hefur viljað gera jafnréttismálum hátt undir höfði í baráttu sem er að ná flugi. Hæstv. forsætisráðherra er líka í skuld við þingið og á fyrir langa löngu að hafa afhent skýrslu aðgerðahóps um virði kvennastarfa og ég hef lagt fram fyrirspurn og óskað skriflegs svars þar að lútandi. Óraunhæfar og allt að því oflætislegar yfirlýsingar gera hins vegar lítið til að brýna vandann fyrir þeim sem þurfa mest að hlusta. (Forseti hringir.) Við höfum engan tíma fyrir óraunhæfar yfirlýsingar. Ríkisstjórnin þarf að vinna alla sína hugrænu byrði sjálf í þessu máli.