154. löggjafarþing — 20. fundur,  25. okt. 2023.

Störf þingsins.

[15:35]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf):

Virðulegi forseti. Fólk fæðist ekki með hatur í hjarta. Þjóðir hafa ekki eitthvert tiltekið eðli sem gerir þær illar eða góðar eftir atvikum, í sjálfu sér. Hins vegar getur fólk búið við þannig aðstæður að þær kalli fram heift og óslökkvandi hatur í garð þeirra sem bjuggu til þessar aðstæður. Markviss og áralöng kúgun ræktar ekki bara þrælslund og ótta hjá þeim sem á von á grimmilegri refsingu fyrir minnstu yfirsjón, hún ræktar líka hatur. Og hvernig tjáir manneskjan hatur sitt? Með eyðileggingu, ofbeldi og morðum, með blóðsúthellingum, með hefnd, og fá þeir fulltrúar þá brautargengi í samfélögum þar sem þannig háttar sem eru taldir líklegir til þess að hefna, eyða, myrða og brenna og tjá allt þetta hatur sem búið er að rækta.

Í gær, virðulegi forseti, voru 700 Palestínumenn drepnir á Gaza, í loftárásum Ísraelshers sem beinast að íbúðablokkum og mannvirkjum og hverjum þeim stað þar sem foringjum Ísraels finnst líklegt að sé að finna einhvern sem hægt er að skilgreina sem Hamas-liða. Hamas eru hryðjuverkasamtök sem beita skelfilegum aðferðum; mannránum og manndrápum. Hamas er samt ekki annað en birtingarmynd þess haturs sem magnast upp og er ræktað í hvert sinn sem manneskja er drepin á Gaza; (Forseti hringir.) manneskja sem tengist engum hernaði, manneskja sem hefur ekkert til saka unnið annað en að vera af tiltekinni þjóð (Forseti hringir.) og hafa komið inn í þennan heim á tilteknum stað og er ekki með hatur í hjarta þegar hún kemur í heiminn.

Virðulegi forseti. (Forseti hringir.) Það er sjálfsögð krafa okkar Íslendinga og umheimsins að vopnahlé verði gert og virt á þessum slóðum þegar í stað.