154. löggjafarþing — 20. fundur,  25. okt. 2023.

staðfesting ríkisreiknings 2022.

399. mál
[15:43]
Horfa

Kristrún Frostadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar að ræða aðeins um fjárfestingargetu ríkisins. Fjárfestingar ársins 2022 voru 60 milljarðar kr. Þetta er 66 milljörðum kr. lægra en heimildir voru til ráðstöfunar á árinu. Það átti sem sagt að vera með heimildir upp á 130 milljarða kr. en einungis um 60, eða helmingur af því, gekk út. Ég velti því fyrir mér, virðulegur forseti, hvað gengur á, hvort ríkið geti raunverulega hreinlega ekki fjárfest. Þetta er grafalvarlegt mál og það er eiginlega ótrúlegt að það sé ekki búið að vinna þá vinnu sem sífellt er verið að vitna til sem snýr að greiningum á ástæðu þessa.

Mig langar að benda á, virðulegi forseti, að frá því að þessi ríkisstjórn tók við hefur þessi vandi aukist ár frá ári. Fyrsta árið fluttu þau fimm milljarða milli ára, síðan árið 2020 urðu 33 milljarðar eftir. Í fyrra þegar við fórum yfir ríkisreikning þá voru þetta 50 milljarðar og núna er þessi upphæð komin upp í 60 milljarða sem situr í fjármálaráðuneytinu óhreyfð og í fjárlagaumræðunni þessa dagana er verið að takast á um hvort það eigi til að mynda að fjármagna framhaldsskólana í landinu. Iðnnám fær ekki fjármagn til að standa undir fjölgun áhugasamra nemenda sem gætu til að mynda nýtt þetta fjármagn í byggingu innviða víða í landinu.

Barnamálaráðherra segist þurfa þrjá til fjóra milljarða inn í framhaldsskólana en fær einn milljarð og ætlar sökum þess að sameina skóla, sisvona. Og á sama tíma þá þjóta hérna í gegnum þingið 60 milljarðar kr. af fjárheimildum sem rata ekki út úr fjármálaráðuneytinu.

Hæstv. ráðherra hefur fullyrt að við verðum að hætta þessari plástrapólitík og fjárfesta til framtíðar svo hægt sé að nýta fjármagn betur. Því spyr ég hæstv. fjármálaráðherra: Hvað ætlar hann að gera til að koma þessu fjármagni út og getur verið að það sé eitthvað í eðli stjórnunar þessarar ríkisstjórnar sem hefur leitt þetta ástand af sér?