154. löggjafarþing — 20. fundur,  25. okt. 2023.

staðfesting ríkisreiknings 2022.

399. mál
[15:45]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S) (andsvar):

Herra forseti. Það er vont þegar stjórnmálin, hvort sem það er framkvæmdarvaldið í stefnumótun eða fjárveitingavaldið, taka ákvarðanir og leggja plön um miklar fjárfestingar sem síðan af ýmsum ástæðum komast ekki út. Við sjáum til að mynda á fyrri árum í aðdraganda að uppbyggingu á nýjum spítala að þá voru of oft fjármunir fastir sem hefði verið hægt í rauninni að færa niður og við hefðum viljað koma hraðar út. Með breyttu vinnulagi erum við komin á miklu betri stað með það risastóra verkefni og ég nefni það vegna þess að það er stærsta einstaka fjárfestingin sem núna er komin á miklu betri stað með plön, áætlanagerð og að koma fjármunum út í fjárfestingar.

Annað dæmi sem mér dettur í hug er fjárfesting í hjúkrunarrýmum þar sem við berjumst fyrir því að gera ráð fyrir töluverðum fjármunum sem síðan komast ekki út í byggingu. Þar segi ég fyrir mitt leyti að ég myndi vilja að við færum meira í það að tryggja að hver og einn sem á rétt á að komast inn á hjúkrunarheimili, geti gert það óháð því hvort það er ríki sem hrærir steypuna eða einhver annar.

Þannig held ég að við kæmum fjármunum sem eiga að fara í fjárfestingar hraðar og betur út. Ríkisvaldið og hið opinbera almennt, hvort sem það er ríkið eða sveitarfélög, þurfa einfaldlega að gera betur í áætlanagerð og mín skoðun er sú að ríkið sé ekki eins öflugur framkvæmdaaðili og það gæti verið og ég mun leggja á það áherslu að við gerum betri áætlanir, raunhæfari áætlanir. Það á við um samgönguáætlun og aðrar áætlanir líka. Ég held til að mynda að þar sé hægt að gera betur. En við hins vegar erum að bæta þessa áætlanagerð og sömuleiðis held ég að þessir fjármunir hafi líka hækkað vegna þess að við tókum stórar ákvarðanir í Covid (Forseti hringir.) þar sem við vildum örva hagkerfið og þá vorum við einfaldlega ekki nægilega vel í stakk búin til að koma þeim fjármunum nægilega hratt út.