154. löggjafarþing — 20. fundur,  25. okt. 2023.

stórefling innlendrar matvælaframleiðslu og öruggt og fyrirsjáanlegt rekstrarumhverfi landbúnaðar.

7. mál
[16:23]
Horfa

Flm. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Frú forseti. Þetta eru ekki hægri tillögur, þetta eru skynsemishyggjutillögur af miðju stjórnmálanna frá Miðflokknum. Landbúnaður, ekki bara á Íslandi heldur alls staðar þar sem hann er rekinn, a.m.k. svona í siðmenntuðum löndum, þróuðum ríkjum, þarf á aðstoð ríkisvaldsins að halda og fær hana í mestu velmegunarlöndum Evrópu; í Sviss, Noregi er stuðningur við landbúnað mestur. Og hvers vegna skyldi það nú vera, frú forseti? Vegna þess að í þeim löndum sem hafa náð mestum árangri fyrir borgarana í efnahagslífinu þá er það gert með því að líta á heildarmyndina. Heildarmyndin er sú að ef við fjárfestum ekki í íslenskum landbúnaði, ef ríkisvaldið lítur svo á að það sé sóun að styðja við landbúnaðinn og matvælaframleiðsluna hér þá verður af því tap. Það verður af því mjög verulegt tap fyrir samfélagið allt. Það verður augljóst efnahagslegt tap af því að fara þá að flytja allt inn frá einhverjum frjálshyggjubúum í Evrópu, verksmiðjubúum sem fylgja ekki sömu reglum og lagðar eru á íslenskan landbúnað núna og losa auðvitað allar þessar gróðurhúsalofttegundir á leiðinni. Það verður það tap en það verður líka gífurlegt samfélagslegt tap af því að leyfa þessari undirstöðuatvinnugrein lífs í landinu að drabbast niður. Ég efast um það að einhver maður sem gæti viljað kalla sig íhaldsmann, ég veit að hv. þingmaður er það ekki, kannski einhvers konar frjálshyggjumaður, en allir þeir sem vilja vernda það sem er gott og hefur reynst vel hljóta að vilja vernda íslenskan landbúnað og telja að það að styðja við greinina sé góð fjárfesting.