131. löggjafarþing — 20. fundur,  5. nóv. 2004.

Byggðaáætlun fyrir árin 2002--2005.

216. mál
[14:39]

Kristján L. Möller (Sf):

Virðulegi forseti. Hér í lok viku, á föstudegi, tökum við til umræðu og höldum áfram að ræða skýrslu iðnaðarráðherra um framvindu byggðaáætlunar fyrir árin 2002–2005. Í dag er 5. nóvember. Þetta er skýrsla sem hefði að sjálfsögðu, eins og áður hefur verið sagt, átt að ræðast síðasta vor. Við hefðum átt að fjalla um hana þá en það var ekki gert. Hæstv. ráðherra kennir forseta þingsins um það að skýrslan hafi aldrei komist á dagskrá. Hún hefur lýst því við fyrri umræðu að hún hafi mikið gert til að koma skýrslunni á dagskrá.

Ég hef áður sagt „betra er seint en aldrei“ og held mig við það þó að það sé alltaf slæmt þegar umræða er slitin í sundur. Það er eðlilegt að þetta sé mikið rætt. Það er kannski heldur ekkert óeðlilegt við það að í sal Alþingis í dag eru aðeins þrír alþingismenn á þessari stundu við að ræða skýrslu iðnaðarráðherra um framvindu byggðaáætlunar. Ég tek þó skýrt fram að það eru nokkrir á mælendaskrá. Það er kannski sýnishorn af því hvernig byggðamálaumræða hefur þróast á hinu háa Alþingi hin síðari ár.

Ég hef sagt það áður og vitnað í orð hæstv. fyrrverandi félagsmálaráðherra, Páls Péturssonar, sem hann sagði úr ræðustól, að Framsóknarflokkurinn hefði gleymt landsbyggðinni þegar hann hóf markaðssókn fyrir formann Framsóknarflokksins á höfuðborgarsvæðinu. Hann hefur þó ekki miklu meira atkvæðamagn bak við sig en formaður stúdentaráðs í kosningum til stúdentaráðs, en sleppum því nú. Auðvitað sakna ég þess að framsóknarmenn og sjálfstæðismenn skuli ekki koma hér í umræðu, einkanlega sjálfstæðismenn sem eru yfirleitt á harðahlaupum frá þessu máli og ræða það ógjarnan á Alþingi.

Mörg atriði hefði ég viljað ræða í seinni ræðutíma mínum um þessa skýrslu en verð því miður að stikla á stóru, fara bara yfir nokkur atriði. Ég var búinn að fara yfir fáeina þætti, m.a. að nefna það og vekja athygli þingsins á því að sú skýrsla sem lögð var fram á þessu hausti er töluvert mikið öðruvísi en sú skýrsla sem hæstv. ráðherra lagði fram á vorþingi. Ýmsir merkilegir markmiðakaflar, kaflar um hver beri ábyrgð á framkvæmdinni og hverju eigi að ná í þeim efnum, eru fallnir út. Hæstv. iðnaðarráðherra, ráðherra byggðamála, hefur ekki getað svarað því á sannfærandi hátt hvers vegna þetta er farið út. Nefni ég t.d. afslátt vegna lána hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna sem átti að vera á herðum hæstv. fjármálaráðherra. Ég spurði hæstv. fjármálaráðherra út í það sl. vor og svörin voru þau að nánast ekkert væri verið að gera í málinu. Nú hefur þetta verið fellt út úr skýrslunni, þ.e. markmiðasetningin og áformin, hin göfugu, fallegu orð sem sett voru í þessa skýrslu og sett inn í áætlunina sem svo kemur í ljós að er ekkert annað en orðin tóm. Því miður.

Ég gæti tekið mörg atriði. Ég hef áður rætt um það að byggðamál snúast orðið miklu meira um það sem mundi kallast jöfn lífskjör og jöfn búsetuskilyrði fólks, sama hvort það býr í Reykjavík eða á Raufarhöfn, í Kópavogi eða á Kópaskeri. Það er auðvitað ólíðandi, eins og ég hef áður sagt, að fólk á þeim stöðum þar sem ríkið rekur ekki framhaldsskóla skuli þurfa að leggja fram miklar og háar upphæðir umfram íbúa landsins sem sitja í þeim sveitarfélögum þar sem ríkið rekur framhaldsskóla og borgar kennurum laun. Þetta fólk þarf að punga út miklum fjármunum til að mennta unglinga sína og það er náttúrlega óþolandi og ólíðandi.

Nú skal ég taka það skýrt fram, virðulegi forseti, að töluverðum upphæðum er varið til jöfnunar námskostnaðar. Það er mikið og gott atriði í sambandi við jafnræði og jöfnun búsetuskilyrða en hins vegar vantar meiri peninga, miklu meiri, vegna þess að þetta er ekki jafnað nóg.

Sama má segja um ótal mörg önnur atriði, t.d. fyrir íbúa landsbyggðarinnar sem þurfa að leita sér lækninga suður til Reykjavíkur. Þar munar líka miklu á að jafnræðis sé gætt. Þetta á auðvitað að gerast í gegnum skattkerfið, eins og kom fram og var svo fallega sagt í lögunum sem við ræddum í gær, þ.e. breytingar á lögum um húsnæðissjóð, 90% lánin. Þar er sagt að jöfnunaraðgerðirnar skuli gera í gegnum skattkerfið og eigi að gera það í leiðbeiningum um greinarnar. Þetta er fallega sagt og vonandi að það verði tekið fyrir á fleiri stöðum.

Virðulegi forseti. Á þeim stutta tíma sem ég hef ætla ég að gera að umtalsefni tekjustofna sveitarfélaga og það hvernig ríkisvaldið, ríkisstjórn og Alþingi, hafa sífellt verið að setja meiri kvaðir, lög og reglugerðir á sveitarfélögin án þess að tekjustofnar hafi fylgt með. Þetta segi ég hér í umræðu um byggðamál vegna þess að það er auðvitað mjög mikilvægt atriði í sambandi við byggðamál að öll sveitarfélög á landinu hafi tekjustofna til að sinna lögboðnum framkvæmdum og ákvörðunum sem sveitarfélögin eiga að sinna, svo og lögbundinni þjónustu. Sveitarfélög vítt og breitt um landið geta það alls ekki vegna þess hve lágur tekjustofninn er orðinn.

Þetta ætla ég að gera að umtalsefni vegna þess að svokallaðri fjármálaráðstefnu Sambands íslenskra sveitarfélaga er nýlokið. Þar voru flutt mörg mjög merkileg erindi og sýnt fram á hvernig sífellt hafi verið að fara á verri hliðina fyrir sveitarfélögin í fjárhagslegum samskiptum ríkis og bæja. Þar féllu t.d. orð hjá formanni Sambands íslenskra sveitarfélaga eins og þau að það gengi illa að toga ríkisvaldið að þessu borði, þ.e. til að ræða á vitrænan hátt, eins og hann sagði, við ríkisvaldið um tekjustofna sveitarfélaga. Þar sagði þessi sami maður þau orð að samskipti ríkis og sveitarfélaga væru ekki nógu góð. Hann tók svo dæmi af efnahagsmálum, kjarasamningamálum og fjárhagslegum samskiptum.

Það kom líka fram hjá sambandinu, formanni, að stjórn þess væri mjög ósátt við þá samráðsfundi sem haldnir væru milli ríkisins og sveitarfélaganna. Hann sagði að þeir gögnuðust lítið sveitarfélögunum og að umræðurnar væru ekki mjög vitrænar. Virðulegi forseti. Ég hef hér eftir það sem formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga sagði um samskipti ríkisvaldsins og sveitarfélaganna. Þó að ég geri mér grein fyrir því að þessi mál heyri undir félagsmálaráðherra er engu að síður rétt að draga þau hér fram í þessum efnum.

Ég ætla ekki að hafa allt eftir að þessu sinni sem kom fram á ráðstefnunni en ég vil líka taka sem dæmi umsögn bæjarstjórans á Akureyri. Hann er einn af þremur í tekjustofnanefnd og er að reyna að semja við ríkið um þessi atriði. Hann orðaði það svo að það væri dapurt að sitja fundi við umboðslausa aðila frá ríkisvaldinu og sagði að við værum nánast í sömu sporum og í desember 2003. Þetta segir margt um fjárhagslegu samskiptin og ég ítreka að ég geri þetta hér að umtalsefni vegna þess að sveitarfélögin eru náttúrlega stærstu atvinnurekendur vítt og breitt og í mörgum sveitarfélögum á landinu þó að svo sé ekki hér á höfuðborgarsvæðinu. Sveitarfélögin eiga að sinna lögbundinni þjónustu við íbúana, sama hvort það er í skólamálum, leikskólamálum, öldrunarmálum, annarri félagslegri þjónustu eða hverju sem er. Þau geta það ekki vegna þess að sífellt er verið að þrengja að þeim.

Ég ætla að grípa aðeins niður í nokkur atriði sem komu fram í ágætu erindi bæjarstjórans á Akranesi þar sem hann bar saman hvernig þetta hefði þróast hjá sveitarfélögunum gagnvart ýmsum ákvörðunum sem hafa komið frá hinu háa Alþingi. Hann tók sem dæmi að kostnaðurinn vegna húsaleigubóta hjá Akureyrarbæ hefði aukist úr 10 millj. í 50 millj. frá 1990 til 2003. Það má taka fleiri málaflokka sem þarna voru teknir sem dæmi. Kostnaður t.d. vegna barnaverndar hefur á sama tíma eða frá árinu 1990 til 2003 hjá Akureyrarbæ aukist úr 5 millj. kr. í 20 millj. kr. Kostnaður vegna liðveislu hefur hækkað úr 5 millj. í 22 millj. frá 1990–2003 hjá Akureyrarbæ.

Það var ansi merkilegt sem sagt var á þeim fundi um grunnskólana, orðrétt, með leyfi forseta:

„Það sem mátti ekki gera meðan ríkið annaðist grunnskólann er orðið að skyldu eftir að sveitarfélögin tóku við.“

Ég vek athygli á þessu orðalagi, virðulegi forseti. Þetta eru orð sem skólastjórnandi hafði um kerfið eftir að ríkið losaði sig við grunnskólana og færði þá til sveitarfélaganna. Síðan hefur margt annað í rekstri grunnskóla stóraukist vegna ákvarðana og reglugerða frá Alþingi og frá menntamálaráðuneyti.

Það má t.d. líka fjalla um þessi fjárhagslegu samskipti þegar menn tala um styttingu náms til stúdentsprófs. Þá er gert ráð fyrir tilfærslu verkefna til grunnskólanna, aukinnar endurmenntunar og aukinnar námsráðgjafar. Þarna er verið að færa þetta í rauninni frá ríkinu til sveitarfélaganna. Hver á að borga brúsann? Sveitarfélögin að mati hæstv. ríkisstjórnar.

Það má halda áfram svona, virðulegi forseti, en tími gefst ekki til að fara í gengum þessi fjárhagslegu samskipti.

Ég vil aðeins segja það að lokum um fjárhagsleg samskipti ríkis og sveitarfélaga að mikil þörf er á því að niðurstaða komi út úr þeim viðræðum sem eru í gangi nú milli sveitarfélaganna og ríkisvaldsins í tekjustofnanefndinni. Frá þessari nefnd verða að koma tillögur um bráðaaðgerðir til að rétta af fjárhag sveitarfélaganna í því sem búið er að gera þar sem skuldir hafa verið að hlaðast upp.

Hitt er svo næsta verkefni sem verður auðvitað að vinna samhliða vegna þeirrar ákvörðunar sem ríkisstjórnin hefur tekið, þ.e. að efna til allsherjaratkvæðagreiðslu um sameiningu sveitarfélaga næsta vor. Ef ekki verður búið að koma tekjustofnum sveitarfélaganna í eðlilegt horf, ef ríkisvaldið verður ekki búið að gefa eftir hluta af þeim skatti sem innheimtur er til sveitarfélaganna, spái ég því að engar sameiningarkosningar verði í landinu, það verði ekki hægt að leggja það fyrir íbúa landsins, íbúa byggðarlaga úti um allt land, að fara að greiða atkvæði um slíkar sameiningartillögur ef sveitarfélögin eiga að vera jafnfjársvelt og þau eru núna frá hendi ríkisins vegna þeirra atriða sem ég hef hér tekið nokkur dæmi um í fjárhagslegum samskiptum ríkis og sveitarfélaga.

Ég geri mér grein fyrir því, virðulegi forseti, að það eru alvarleg orð sem ég færi hér fram um þessar fyrirhuguðu sameiningarkosningar. Það er sannarlega þörf á því að fækka sveitarfélögum og sameina þau, a.m.k. þessi allra minnstu, til þess að þau geti betur innt af hendi þá þjónustu sem þarf gagnvart íbúunum. En málið er að mínu mati mjög alvarlegt og er í mjög þröngri stöðu.

Ég ætla rétt í lokin, virðulegi forseti, að nefna í þessu sambandi að þegar hæstv. ríkisstjórn tók ákvörðun um — ég vek athygli á því að það er hæstv. ríkisstjórn með ráðherra byggðamála innan borðs — að fara í skattkerfisbreytinguna sem gerð var og auka möguleika á því að færa rekstur úr einkarekstri yfir í einkahlutafélög hafði það í för með sér að mati núverandi hæstv. félagsmálaráðherra, fyrrverandi varaformanns Sambands íslenskra sveitarfélaga, að sveitarfélögin töpuðu um 1.000–1.300 millj. kr. Þetta, virðulegi forseti, hefur sveitarfélögunum aldrei verið bætt, að ekki sé nú rifjað upp aftur í tímann þegar Íslendingar stóðu í biðröðum hjá verðbréfastofum á gamlársdag til að kaupa sér hlutabréf og nýta sér skattafslátt. Auðvitað var sá skattafsláttur líka gefinn með því að fella niður svo og svo miklar tekjur til sveitarfélaganna.

Virðulegi forseti. Ég vildi aðeins nefna þennan eina þátt sem á sannarlega erindi inn í umræðu um skýrslu um byggðamál. Fjárhagsstaða mjög margra sveitarfélaga á landinu er það döpur, það léleg, að þau geta ekki innt af hendi til borgaranna þá lögbundnu þjónustu sem sveitarfélögin eiga að veita, þá sjálfsögðu þjónustu sem íbúar vítt og breitt um landið vilja fá frá sveitarfélagi sínu. Stóru sveitarfélögin sem flest eru á höfuðborgarsvæðinu geta innt þessa þjónustu af hendi og eru sífellt að auka hana. Það geta þau vegna þess að tekjur til þeirra hafa aukist, m.a. vegna búferlaflutninga.