132. löggjafarþing — 20. fundur,  14. nóv. 2005.

Vatnalög.

268. mál
[18:17]
Hlusta

umhverfisráðherra (Sigríður A. Þórðardóttir) (S) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Jón Bjarnason fór mikinn í umræðu sinni um frumvarpið sem hér er til umfjöllunar. Hann hafði mörg orð um gildissvið frumvarpsins og ræddi sérstaklega um að umhverfisráðherra lægi flatur fyrir iðnaðarráðherra. Ég verð að segja að ég skildi ekki þingmanninn þegar hann fjallaði um málið með þeim hætti. Hann gleymdi algerlega, í umfjöllun sinni um gildissviðið, að í gildi eru grundvallarlög á sviði umhverfismála óháð þeirri löggjöf sem hér er til umræðu. Ég nefni t.d. lög um náttúruvernd, lög um hollustuhætti og mengunarvarnir, lög um varnir gegn mengun hafs og strandar, lög um mat á umhverfisáhrifum, skipulags- og byggingarlög og fleira mætti telja. Í þessu frumvarpi er ekki hróflað við öðrum lagaákvæðum sem fjalla um vatn.