135. löggjafarþing — 20. fundur,  7. nóv. 2007.

íslenska ákvæðið í Kyoto-bókuninni.

174. mál
[12:54]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Frú forseti. Þetta var afar mikilvæg yfirlýsing sem hæstv. forsætisráðherra kom með úr ræðustóli núna, að það sé sjónarmið hans, og hann undirstrikaði að það væri skoðun hans, að það ætti aftur að fara fram á undanþáguákvæði á borð við það sem farið var fram á og kallað hefur verið íslenska ákvæðið.

Ég er ekki viss um að hæstv. umhverfisráðherra sé ánægð með þessi orð eða þessa yfirlýsingu hæstv. forsætisráðherra því að hæstv. umhverfisráðherra hefur látið þau orð falla að það sé von hennar að við komumst hjá því að fara fram á undanþágu á sömu nótum og við gerðum á sínum tíma.

Ég segi það hér sem skoðun mína og okkar sem störfum á Alþingi Íslendinga fyrir Vinstri hreyfinguna – grænt framboð að við erum því algerlega mótfallin og krefjum ríkisstjórnina um aðgerðir í því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Við viljum fá að sjá aðgerðaáætlun sem verði trúverðug varðandi þau markmið að okkur takist að draga (Forseti hringir.) saman losun gróðurhúsalofttegunda um 50–75% fyrir miðja öldina.