135. löggjafarþing — 20. fundur,  7. nóv. 2007.

framhaldsskóli við utanverðan Eyjafjörð.

157. mál
[14:52]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Þuríður Backman) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég legg fram fyrirspurn til hæstv. menntamálaráðherra ásamt Birni Val Gíslasyni sem var hér varaþingmaður Steingríms J. Sigfússonar um þriggja vikna skeið fyrr í vetur. Ástæðan fyrir þessari fyrirspurn um framhaldsskóla við utanverðan Eyjafjörð er einfaldlega sú að löngum hefur verið mikill áhugi á betri menntun og betra aðgengi að framhaldsnámi fyrir ungmenni á þessu svæði, sem sé við utanverðan Eyjafjörð, og það er staðreynd að til þess að styrkja byggð og búsetu eru þrír þættir hvað mikilvægastir, góðar samgöngur, fjarskipti og menntun. Framhaldsnám er þar undirstaða. Því er mikill áhugi hjá íbúum við utanverðan Eyjafjörð að koma á framhaldsmenntun á staðnum.

Nú hefur í raun verið ákveðið að koma upp framhaldsskóla við utanverðan Eyjafjörð en íbúar og sveitarstjórnarmenn hafa af því áhyggjur að þess sjái ekki stað í fjárlögum fyrir árið 2008 og þar sem búið er að gefa undir fótinn með að þessu námi verði komið á vilja sveitarstjórnarmenn þegar ráða verkefnastjóra til að undirbúa þetta verkefni og stefna að því að starfið geti hafist 2009. Eins og er er verkefnið í lausu lofti úr því að fjármagnið er ekki fyrir hendi.

Því vil ég spyrja hæstv. menntamálaráðherra, í fyrsta lagi: Hvenær er áætlað að hefja framkvæmdir við byggingu framhaldsskóla við utanverðan Eyjafjörð? Í öðru lagi: Hvar verður skólinn og hvenær er áætlað að hann verði tilbúinn í nýju húsnæði? Í þriðja lagi: Hver er áætlaður kostnaður við nýbyggingu framhaldsskóla?

Hæstv. forseti. Ástæður fyrir því að spurt er um staðsetningu er sú að góð samvinna hefur verið milli sveitarfélaganna á Dalvík, Ólafsfirði og Siglufirði og er auðvitað horft til Héðinsfjarðarganganna til að gera að möguleika þann draum að koma þessu framhaldsnámi á. Vinnan er ekki lengra komin en svo að fyrir okkur hv. þingmenn sem hlustuðum á sveitarstjórnarmenn flytja erindi sín virðist þetta enn þá vera í lausu lofti hvað varðar staðsetningu. Við spyrjum því m.a. (Forseti hringir.) hvort búið sé að ákveða staðsetninguna.