135. löggjafarþing — 20. fundur,  7. nóv. 2007.

íslenska friðargæslan.

74. mál
[15:19]
Hlusta

utanríkisráðherra (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) (Sf):

Virðulegur forseti. Þingmennirnir Steingrímur J. Sigfússon og Ögmundur Jónasson hafa beint til mín fyrirspurn um íslensku friðargæsluna sem er í þremur liðum og fyrsti liðurinn er á þessa leið:

„Er þess að vænta að íslenskir friðargæsluliðar verði kvaddir heim frá Afganistan?“

Því er til að svara að nú eru 15 friðargæsluliðar að störfum í Afganistan en þar eru nú einar 36 eða 38 þjóðir með þátttöku í friðargæsluliðinu. Tíu þeirra starfa við rekstur flugvallarins í Kabúl, þrír friðargæsluliðar starfa í höfuðstöðvunum þar inni á skrifstofu fjölmiðlafulltrúa og á skrifstofu sérlegs fulltrúa framkvæmdastjóra NATO. Þrír starfa í endurreisnar- og uppbyggingarsveit sem staðsett er í Shak Sharan í norðurhluta Afganistans.

Það stendur ekki til og ekki talin ástæða til að endurskoða veru þessara friðargæsluliða í Afganistan. Við metum að sjálfsögðu í okkar stefnumörkun hvernig stöður og hvernig verkefni það eru sem við viljum einbeita okkur að og auðvitað hefur orðið ákveðin þróun og breyting á því með aukinni áherslu á störf innan borgaralega hluta alþjóðlega friðargæsluliðsins. Allir þeir starfsmenn sem þarna er um að ræða eru borgaralegir sérfræðingar.

Í öðru lagi:

„Hefur farið fram eða stendur yfir endurmat á þátttöku Íslendinga í friðargæsluverkefnum í kjölfar nýrra laga um íslensku friðargæsluna?“

Því er til að svara að í sjálfu sér kallaði lagasetningin ekki fram breytingar eða endurmat á þátttöku í verkefnum nema því eina verkefni sem ég hef þegar endurmetið, þ.e. þátttakan í Írak. Hins vegar, með hliðsjón af stefnu ríkisstjórnarinnar um að leggja áherslu á mannréttindi, aukna þróunarsamvinnu og friðsamlega úrlausn deilumála, hafa verið og verða gerðar ákveðnar áherslubreytingar. Til dæmis stendur til að auka þátttöku í friðargæslu á vegum Sameinuðu þjóðanna og við erum nú í viðræðum við Sameinuðu þjóðirnar um það. Einnig er ráðgert að senda fólk til starfa fyrir alþjóðastofnanir í Miðausturlöndum til að taka þar þátt í að styðja uppbyggingarstarf og stöðugleika.

Í þriðja lagi:

„Telur ráðherra að þátttaka íslenskra friðargæsluliða í verkefnum á vegum NATO sé samrýmanleg ákvæðum 1. gr. laga, nr. 73/2007, um íslensku friðargæsluna og þátttöku hennar í alþjóðlegri friðargæslu?“

Því er til að svara að ég tel að þátttaka Íslands í verkefnum Atlantshafsbandalagsins sé samrýmanleg inngangsákvæði laganna. Þar er talað um borgaralega sérfræðinga sem sendir eru til starfa og síðan nefnd dæmi um hvers konar störf það geti verið. Við leggjum til sérfræðiþekkingu og ákveðna reynslu í þau verkefni sem við tökum þátt í. Í sumum tilvikum starfa friðargæsluliðar okkar innan hernaðarskipulags og bera þá í samræmi við ákvæði laganna um friðargæsluna, nota bene, einkennisföt og tign. Sá þáttur er ekki aðalatriði í starfi þeirra. Tign og einkennisklæðnaður er hluti af skipulaginu í þeirri heild sem þeir starfa og markar hvaða stöðu þeir hafa innan þess samfélags í samskiptum við þá eða aðra sem þeir hafa eftirlit með og starfa með.

Virðulegur forseti. Eins og skýrt kemur fram í lögunum, sem hér er vitnað til, er gert ráð fyrir að friðargæsluliðar á vegum íslensku friðargæslunnar geti starfað í herskipulagi, verið með tign og einkennisföt, en hins vegar séu þetta allt borgaralegir sérfræðingar og taki ekki þátt í að koma á friði heldur að reyna að varðveita frið, þótt brothættur sé, á svæðum þar sem mikil átök hafa átt sér stað.

Varðandi Afganistan er það svo að mjög er kallað eftir því að þjóðir heims leggi þar meira af mörkum. Það er ljóst að þar er staðan þannig að menn verða að ætla sér að vera þar um óákveðinn tíma. Ég vil nefna sérstaklega í því sambandi að nú hafa norsk stjórnvöld, ef ég veit rétt, ákeðið að auka verulega viðveru sína í Afganistan og leggja sitt af mörkum með þeim hætti.