136. löggjafarþing — 20. fundur,  5. nóv. 2008.

Störf þingsins.

[13:48]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Fyrirspurn mín er á sömu nótum og það sem kom fram hjá hv. þm. Katrínu Jakobsdóttur. Hún snýr að viðskiptanefnd en við framsóknarmenn höfum ekki bara óskað eftir neyðarfundi út af stöðu sparisjóðanna og annarra minni fjármálafyrirtækja heldur einnig út af málaferlum gamla Kaupþings við breska ríkið og samningunum við Holland og Bretland þar sem enn liggur fyrir beiðni okkar um viljayfirlýsinguna sem íslenska ríkið hefur gert við Hollendinga. Þá höfum við tvisvar fengið á fund nefndarinnar stjórnendur peningamarkaðssjóða viðskiptabankanna til að ræða stöðu þeirra. Á að bjarga sparisjóðakerfinu? Hvað stendur í viljayfirlýsingunni við Holland? Er ríkið að kaupa verðlaus skuldabréf og víxla gömlu bankanna í peningamarkaðssjóðunum? Eru engar samræmdar aðgerðir í gangi?

Það hefur verið meira en full þörf á að ræða þessi mál og fylgja þeim eftir og upp koma stór mál á hverjum einasta degi sem nauðsynlegt er að ræða í nefndinni. Ég þakka formanni nefndarinnar og varaformanni fyrir að vel hefur verið tekið í beiðnir okkar framsóknarmanna en spyr um leið: Er ekki ástæða til að funda á hverjum degi og halda þingmönnum upplýstum um hvað sé að gerast? Það ríkir neyðarástand í þjóðfélaginu og heimili og fyrirtæki eru í bráðri hættu. Okkar færustu hagfræðingar, eins og Jón Daníelsson og Gylfi Zoëga, hafa sagt að vandi fjölskyldna og heimila sé svo mikill að ríkið verði jafnvel að kaupa upp fasteignir og leigja þær svo aftur út til einstaklinga. Er staðan virkilega svona slæm?

Forseti þingsins brást illa við í gær þegar ég reyndi að benda á að þingmenn væru að brenna inni með mikilvægar spurningar sem viðskiptaráðherra getur einn svarað en hann var fjarverandi á fyrirspurnatíma þingsins og verður áfram fjarverandi. Ég spyr því: Er ekki tímabært að hið háa Alþingi leggi þingsköpin til hliðar og þingmenn, óháð flokkadráttum, fái fleiri tækifæri til að funda og ræða þann (Forseti hringir.) alvarlega vanda sem blasir við íslensku þjóðinni og um leið að efla virðingu almennings fyrir (Forseti hringir.) störfum þingsins?