136. löggjafarþing — 20. fundur,  5. nóv. 2008.

Störf þingsins.

[13:58]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Frú forseti. Mig langar að taka upp það sem hv. þm. Katrín Jakobsdóttir nefndi um þingið og fjallar um störf þingsins. Ég hef setið á þingi síðan 12. maí 2007 og telst því nýr þingmaður þótt ekki sé ég ung og ég verð að segja að verklag löggjafarsamkundunnar á þessum tíma hefur vægast sagt komið mér á óvart. Ég hefði kosið að aðild þingsins að einu og öllu, að gerð frumvarpa, að umræðu um gerð frumvarpa, aðild þingsins að flestöllum málum væri meiri en hún er. Flokkur minn, Sjálfstæðisflokkurinn, ber ábyrgð á þessu sem og allir aðrir flokkar sem sitja á þingi. (Gripið fram í: Halló.) Hæstv. forseti þingsins hefur þó á þessum tíma reynt að breyta verklagi þingsins og er það vel. Hann hefur fyrst og síðast gert það með tilliti til þingskapa. Ég held að allir þingmenn, hvar í flokki sem þeir standa, þurfi að velta því fyrir sér að við erum ekki afgreiðslustofnun heldur hluti af því að setja landinu lög, að við afgreiðum ekki bara það sem kemur frá framkvæmdarvaldinu heldur erum við líka þátttakendur. Þetta er ekki svona, þetta hefur ekki verið svona um áratugaskeið. Þetta hefur verið með öðrum hætti og þessu þarf að breyta. Að öðrum kosti erum við þingmenn eins og ágætar afgreiðsludömur eða -herrar í búð sem segja já eða nei.