138. löggjafarþing — 20. fundur,  5. nóv. 2009.

heimild til samninga um álver í Helguvík.

89. mál
[14:20]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér fannst bara svo áhugaverð athugasemd hans um EES að ég gat ekki látið hjá líða að bregðast við þannig að tíminn fór frá mér áður en ég gat farið yfir í ákvörðun umhverfisráðherra. Um hana sagt hefur hún ekki tafið þetta verk. Það liggur fyrir að Skipulagsstofnun er búin að endurúrskurða og það mál er í raun og veru smámál við hliðina á þeim stóru verkefnum sem eru að baki því að fjármagna orkuöflunina líka fyrir verkefnið sjálft sem er risastórt mál.

Líka aðeins að orku- og auðlindasköttunum, ég ætla ekki að víkja mér undan þeirri umræðu, það er alveg ljóst að það mál mun líklega ekki snerta álverið í Helguvík miðað við yfirlýsingar sem gefnar hafa verið. Það er verið að ganga frá því núna þar sem menn eru að reyna að vinna hratt og vel að því í ríkisstjórninni að eyða þessari óvissu. Ég er sammála hv. þingmanni, það var ákveðin óvissa uppi um tíma en ég held að miðað við það sem sagt hefur verið hingað til ætti þeirri óvissu að hafa verið eytt, (Forseti hringir.) að nýframkvæmdir verði undanskildar í þessari tímabundnu skattlagningu eins og hún mun líklega verða.