138. löggjafarþing — 20. fundur,  5. nóv. 2009.

heimild til samninga um álver í Helguvík.

89. mál
[14:21]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fagna þeim samningi sem hér liggur fyrir til umfjöllunar um heimild til þess að ganga til samninga um álverið í Helguvík og segi bara: Þótt fyrr hefði verið, en gott þegar góðir hlutir gerast.

Mig langar þó að velta tvennu upp sem hæstv. iðnaðarráðherra hefur reyndar komið aðeins inn á í andsvörum, annars vegar um þessa orkuskatta og auðlindaskatta. Hæstv. ráðherra sagði áðan að það væri trúlegt að þeir mundu ekki hafa nein áhrif á atvinnuuppbygginguna í Helguvík. Ég vildi gjarnan fá hæstv. ráðherra til þess að dýpka aðeins þá yfirlýsingu svo við vitum hvar og fyrir framan hvað við stöndum.

Svo er hitt, í ljósi þeirrar umræðu sem var hér áðan utan dagskrár um atvinnuuppbyggingu á Bakka, hugsanlegt álver þar og hina mögnuðu og umdeildu ákvörðun þáverandi umhverfisráðherra um sameiginlegt mat, að nú sitjum við svolítið í sömu súpunni. Ég heyrði að hæstv. ráðherra gerði lítið úr því og taldi að tafirnar yrðu litlar, en tafirnar eru ekki síst fólgnar í því að þegar ríkisstjórn kemur ósamstiga fram hræðir hún erlenda fjárfesta. Ég hef fyrir því fulla vissu, hef hitt þá aðila sem eru að byggja upp í Helguvík og þeir óttuðust annars vegar mjög þessa orkuskatta og svo hins vegar gera þeir sér ekki ljóst hvað svona samstaða í ríkisstjórn þýðir.

Mig langar til að biðja hæstv. iðnaðarráðherra að fullvissa okkur um að ríkisstjórnin gangi ein og heil og samstiga fram í þessu máli og að við munum ekki, því miður og e.t.v., þurfa að taka utandagskrárumræðu eftir eitt eða tvö ár um afar umdeilda ákvörðun umhverfisráðherra um Suðvesturlínu eftir nokkur ár.