139. löggjafarþing — 20. fundur,  4. nóv. 2010.

samvinnuráð um þjóðarsátt.

80. mál
[15:02]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er kannski til marks um ástandið í samfélaginu að þegar formaður Framsóknarflokksins, þess gamla og gróna flokks, flytur framsögu fyrir tillögu sem er að öllu leyti jákvæð, a.m.k. merkilegt framlag, þá er enginn fjölmiðill hér til að fylgjast með þeirri umræðu. (Gripið fram í.) Ég segi fyrir sjálfan mig að mér finnst þessi tillaga jákvæð og ég er sammála nánast öllum markmiðunum. Ég hef fyrirvara við nr. 1og skildi ekki nr. 2 fyrr en undir ræðu hv. þingmanns. Það sem mér finnst mestu skipta er að hér leggur Framsóknarflokkurinn til að komið verði á fót samvinnuráði sem á að vera vettvangur stjórnmálaflokka og hagsmunaaðila þar sem allir þingflokkar eiga að hafa fulltrúa og sömuleiðis hagsmunasamtök. Þetta er jákvætt, þetta er tilraun til að nálgast lausn á vanda. En ég bendi hv. þingmanni á að þetta er ekki alls óskylt þeirri hugmynd sem hæstv. forsætisráðherra, sem hann hefur átt orðastað við hér í dag undir öðrum dagskrárlið, hefur verið að leita hófanna eftir stuðningi við, þ.e. hæstv. forsætisráðherra hefur lagt fram hugmynd um vettvang sem er mjög svipaður. Sumir í stjórnarandstöðunni hafa tekið því giska illa og sumir jafnvel tekið til fótanna og runnið undan þeirri hugmynd en förum ekki nánar út í það. (Gripið fram í.)

Ég segi það, hæstv. forseti, að mér finnst þetta jákvæð tillaga sem er sjálfsagt að reyna að finna flöt á samvinnu um. Hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins munu á morgun ræða sínar hugmyndir til lausnar á þeim vanda sem við er að glíma í samfélaginu og það finnst mér líka jákvætt. En þá finnst mér líka fram komið að bæði stjórnarflokkarnir og stjórnarandstaðan virðast vera sammála um að nauðsynlegt sé að taka sama höndum og efla samráð og samvinnu. Ég er til í það og svo er um aðra ráðherra en þá verður stjórnarandstaðan náttúrlega líka að sýna það, ekki bara Framsóknarflokkurinn, að hugur fylgir máli.