139. löggjafarþing — 20. fundur,  4. nóv. 2010.

samvinnuráð um þjóðarsátt.

80. mál
[18:21]
Horfa

Þór Saari (Hr) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er alveg hárrétt hjá hv. formanni Framsóknarflokksins að þingmenn úr öllum flokkum hafa unnið að þessu máli á hinum ýmsu stöðum. Í nefndum í fyrrasumar fundaði ég óformlega ásamt hv. þingmönnum Tryggva Þór Herbertssyni, Helga Hjörvari og Lilju Mósesdóttur og Marinó G. Njálssyni frá Hagsmunasamtökum heimilanna í þó nokkur skipti. Við fengum upplýsingar úr bönkunum um hversu mikið lán hefðu verið afskrifuð og komumst að því að það væri alveg fyllilega raunhæft að fara út í almennar leiðréttingar á skuldum heimilanna.

Þær tillögur komust ekki áfram innan þingflokka ríkisstjórnarinnar vegna andstöðu einstakra ráðherra við þær. Á að taka völdin af þeim ráðherrum? Að mínu viti á alveg hiklaust að gera það og þingið á hiklaust að gera það. Það er þingið sem velur ráðherrana og ef ráðherrarnir geta ekki tekið stöðu með stórum hluta almennings í málum á Alþingi einfaldlega að taka valdið og ber skylda til að gera það.

Hvort þjóðstjórn er rétta leiðin skal ég ekki segja. Ég er svolítið hræddur við Alþingi þar sem engin stjórnarandstaða er. (Utanrrh.: Hvað með Hreyfinguna? Hvað með Hreyfinguna?) Vissulega má gera sér í hugarlund að það væri hægt í framhaldi af þessari tillögu Framsóknarflokksins, að koma t.d. á sameiginlegum vettvangi, sem hv. þm. Birgitta Jónsdóttir reyndi að gera í fyrra um sameiginleg mál en formenn þingflokka náðu aldrei að hittast vegna anna út af öðrum málum, að reyna að finna sameiginlegan vettvang þar sem farið væri fram með mál og ef hæstv. ráðherrum hugnaðist þau ekki einhverra hluta vegna yrði bara að hafa það. Þá yrðu þeir stundum að láta einfaldlega í minni pokann. Ég held að það sé bara eðlilegt. (Utanrrh.: Gerum það á hverjum degi.) Ekki nógu oft samt. [Hlátur í þingsal.] Með þessum tillögum Framsóknarflokksins erum við á réttri leið. Ég held að þær lofi góðu og gengur vonandi vel.