140. löggjafarþing — 20. fundur,  10. nóv. 2011.

uppbygging í orkufrekum iðnaði.

[11:09]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég sagði áðan að það skipti mjög miklu að við næðum samstöðu um rammaáætlun í þinginu. Hún er verkfæri til að skapa grunn að sátt í samfélaginu um einstakar virkjunarframkvæmdir. Þetta verkfæri ætlum við okkur að skapa og rammaáætlun á að standa til langs tíma, í fyrsta skipti erum við að horfa til langs tíma í virkjunarframkvæmdum.

Þetta finnst mér vera algjört lykilatriði og hvorki Sjálfstæðisflokkurinn né Vinstri hreyfingin – grænt framboð má stökkva frá því borði. (Gripið fram í.) Hv. þingmaður gerist hér sekur um það sama og hann sakar aðra um, (Gripið fram í.) að stökkva frá borði. (Forseti hringir.)

(Forseti (ÁRJ): Gefa ráðherra ráðrúm til að svara.)

Það væri vel þegið ef fyrirspyrjandi gæfi mér ráðrúm til að svara, virðulegi forseti. Annað þykir mér helber dónaskapur af hans hálfu vegna þess að ég er að reyna að koma máli mínu að því sem hann spyr um.

Virðulegi forseti. Ákvörðun um neðri Þjórsá verður tekin í þinginu á vordögum. (Forseti hringir.) Fjöldinn allur af öðrum kostum eru tilbúnir til framkvæmda. Ég nefni Hverahlíð og framkvæmdir á Norðausturlandi. Hv. þingmaður virðist eingöngu sjá suðvesturhornið þegar horft er til framkvæmda. (Forseti hringir.) Stórar áætlanir eru um uppbyggingu á Norðausturlandi og margir aðrir kostir en neðri Þjórsá eru undir. (Forseti hringir.) Við verðum að leiða málið til lykta í gegnum rammaáætlun í þinginu á vordögum. (Gripið fram í.)