140. löggjafarþing — 20. fundur,  10. nóv. 2011.

fjáraukalög 2011.

97. mál
[17:01]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Ég ætlaði eiginlega ekki að koma hér í seinni ræðu en ég áttaði mig á því að ég gleymdi að svara spurningu sem hv. þm. Þór Saari bar fram í andsvörum áðan. Í þeirri spurningu gerði hv. þingmaður það að umtalsefni að ég sæti í stjórn Vaðlaheiðarganga og spurði hvort ég þægi laun fyrir það.

Því skal svarað alveg klárt, virðulegi forseti: Nei, ég þigg engin laun fyrir að sitja í stjórn Vaðlaheiðarganga, hef ekki fengið og mun ekki taka við ef til stendur. Reyndar hefur aldrei verið rætt um að greiða stjórnarmönnum laun.

Hinu atriðinu get ég þá svarað um leið, vegna þess sem ég setti fram hér áðan. Hæstv. forsætisráðherra og hæstv. innanríkisráðherra báðu mig, 2. september í fyrra, við ráðherraskipti, að halda áfram með lífeyrissjóðaviðræðurnar vegna þess að ég hefði stýrt þeim sjálfur sem samgönguráðherra — ég lagði mikið upp úr þeim viðræðum og vildi taka þátt í þeim sjálfur til að hafa það algjörlega á hreinu hvernig þær gengju og gæti upplýst ríkisstjórnina um það, meðal annars á vikulegum fundum sem þá voru oft haldnir út af atvinnumálum.

Hæstv. innanríkisráðherra spurði um greiðslur fyrir það og ég sagði strax að það kæmi ekki til greina, ég tæki ekki við neinum greiðslum fyrir það. Ég vil láta þetta koma fram, vil ekki láta þennan dag líða, eða þessa umræðu, án þess að svara þessari spurningu.

Hér hefur svolítið verið rætt um barnaskap. Það getur vel verið að það hafi verið barnaskapur af mér en ég hygg að það hafi þá frekar verið vegna áhuga, kannski af kappi, á atvinnusköpun og að koma hjólum atvinnulífsins í gang, og ekki síst út af umferðaröryggismálum, sem ég féllst á að stýra viðræðum við lífeyrissjóðina, sem svo var slitið 10. desember, og að sitja í stjórn Vaðlaheiðarganga, eftir beiðni frá tveimur hæstv. ráðherrum, til að fylgja því máli líka eftir þar. Vel má vera að ég komist að þeirri niðurstöðu síðar að það hafi verið barnaskapur og það hafi ég einfaldlega ekki átt að gera, það er annað atriði. En þetta gerði ég eingöngu vegna áhuga, vegna þess að mér fannst það mikilvægt. Það var líka skemmtilegt og lærdómsríkt að eiga í viðræðum við lífeyrissjóðina og fylgja því verki eftir sem hér hefur verið til umræðu, þ.e. framkvæmdum við Vaðlaheiðargöng.

Ég held að þessu sé svarað. Það er alveg klárt að sá þingmaður sem hér stendur, og var spurður af hv. þm. Þór Saari, hefur ekki tekið við neinum launum fyrir þá stjórnarsetu og mun ekki gera.

Af því að ég er kominn hingað í ræðustól vil ég geta þess í leiðinni, vegna þess að það hefur ekki komið nógu vel fram, sem er dálítið sérstakt, að 51% hlutafélagsins Vaðlaheiðarganga er í eigu Vegagerðarinnar og 49% eru í eigu sveitarfélaga og fyrirtækja á Norðurlandi. Það er til marks um að sveitarfélögin og fyrirtækin leggja fram tæpar 200 millj. kr. í hlutafé í Vaðlaheiðargöng og heimild er til að auka það þannig að sveitarfélögin og fyrirtækin gætu verið að leggja fram 300 millj. kr. sem eru töluverðir peningar fyrir lítil sveitarfélög, og almennt fyrir sveitarfélög sem berjast í bökkum, að leggja fram. Það er kannski dæmi um þann áhuga sem er á Norðurlandi fyrir því verki sem hefur verið aðalumræðuefnið hér í dag, að sveitarfélögin eru tilbúin að leggja slíka fjármuni fram.

Ég vildi láta þetta koma fram vegna þess að mikilvægt er að þetta atriði komi hér til umræðu. Þetta sýnir þann áhuga sem Norðlendingar, hagsmunaaðilar, fyrirtæki, sveitarfélög og aðrir hafa á þessu verki. Það er mjög mikilvægt hvað varðar atvinnusköpun en mikilvægast varðandi umferðaröryggismál eins og áður hefur komið fram.

Ég vildi líka geta þess, það kom fram á opnum fundi á Húsavík um atvinnusköpun á því svæði, að forstjóri Landsvirkjunar lýsti því yfir að það væri ein af grundvallarforsendum fyrir atvinnuuppbyggingu á norðausturhorninu að Vaðlaheiðargöng kæmu, vegna þess að fjárfestar sem væru að spá í að fjárfesta á Bakka við Húsavík til að nýta þá orku sem þar er verið að afla, á þessu aðalorkuöflunarsvæði Landsvirkjunar, líta á það sem mjög mikilvægan þátt að Vaðlaheiðargöng verði byggð.

Með þeim orðum lýkur ræðu minni að þessu sinni um frumvarp til fjáraukalaga þegar það er hér til 2. umr.