140. löggjafarþing — 20. fundur,  10. nóv. 2011.

fjáraukalög 2011.

97. mál
[17:06]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Sigríður Ingibjörg Ingadóttir) (Sf):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka þá umræðu sem farið hefur fram um frumvarp til fjáraukalaga 2011, 2. umr. Hún hefur verið efnismikil og þingmenn hafa rætt ýmsar hliðar frumvarpsins en ekki síður ríkisfjármálanna almennt.

Eins og ég fór yfir í fyrri ræðu bendir Ríkisendurskoðun, í umsögn sinni um frumvarpið, á að agi sé að aukast í ríkisfjármálum. Á vegum fjármálaráðherra er hafin vinna við endurskoðun fjárreiðulaga sem hefur það að markmiði að fjárreiður ríkissjóðs Íslands verði sambærilegar við það sem best gerist. Fjárlaganefnd hefur einnig uppi metnaðarfull áform um að efla eftirlitshlutverk sitt. Nefndin steig þessi fyrstu skref undir forustu fyrrverandi formanns, hv. þm. Oddnýjar G. Harðardóttur.

Það er tvennt sem ég vil helst nefna sem dæmi um þau metnaðarfullu áform, þ.e. sameiginlegt álit nefndarinnar á skýrslu Ríkisendurskoðunar um ríkisreikning 2009 þar sem fram kemur þverpólitískur vilji til að stórefla eftirlitshlutverk nefndarinnar. Þá voru svokallaðir safnliðir fluttir frá fjárlaganefnd í lögbundna sjóði og menningarsamninga en markmiðið með þeim flutningi er faglegri úthlutun fjármuna. Ekki síður eru þær breytingar til þess fallnar að skerpa sýn nefndarinnar á stóru línurnar í ríkisfjármálum. Ég hef miklar væntingar um að frekari skref verði stigin í þá átt með endurskoðun fjárreiðulaga.

Mín von er sú að við munum fljótlega breyta verklagi þannig að Alþingi samþykki útgjaldaramma í apríl á ári hverju þar sem ákveðin verði útgjöld fyrir hvern málaflokk. Slíkar breytingar krefjast mun betri áætlana af hálfu framkvæmdarvaldsins og rýningar okkar hér á Alþingi á þeim áætlunum og skýrir jafnframt þær áherslur, hinar pólitísku áherslur, í ríkisfjármálunum. Til framtíðar litið vona ég að það verði svo að ráðuneytin muni vinna út frá þeim römmum sem við setjum í apríl og leggja fram frumvarp að hausti á grundvelli þeirra ramma.

Þá er ekki síður mikilvægt að fá rammafjárlög til fjögurra ára og langtímaáætlanir fyrir rekstur og útgjöld ríkissjóðs til allt að 30 ára. Með því móti fáum við mun betri tæki til að ræða þróun útgjalda ríkissjóðs og fjárfestingar og fjárfestingaráform eins og þau sem við höfum rætt í dag. Þá getum við hv. þm. Pétur H. Blöndal skipst á skoðunum um það hvort við séum að leggja óeðlilegar byrðar á börnin okkar með samþykktum sem við gerum hér eða hvort þetta sé eitthvað sem sé ásættanlegt og skynsamlegt.

Ég vil að lokum þakka nefndinni fyrir málefnalegt og gott samstarf. Ég vil ekki síst þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir þá vinnu sem hann hefur hrundið af stað varðandi endurskoðun fjárreiðulaga. Ég óska hans fólki velfarnaðar í þeirri vinnu og vona svo sannarlega að við fáum frumvarp til nýrra fjárreiðulaga, eða breytinga á núverandi fjárreiðulögum, til meðferðar í þinginu strax næsta vor.