142. löggjafarþing — 20. fundur,  3. júlí 2013.

skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis um Íbúðalánasjóð o.fl.

[13:54]
Horfa

Brynhildur S. Björnsdóttir (Bf):

Hæstv. forseti. Það sem mér er efst í huga í dag er auðmýkt; viljinn til að læra af reynslunni, viljinn til að axla ábyrgð, viljinn til að vinna saman að sameiginlegum markmiðum, viljinn til að leggja egóið okkar til hliðar, viljinn til að viðurkenna vanmátt okkar og viljinn til að viðurkenna að við sem sitjum hér inni vitum ekki alltaf best. Þetta á ekki bara við um okkur sem sitjum hér inni, heldur aðra embættismenn og stjórnsýsluna alla.

Ábyrgðin sem felst í því að fara með opinbert fé er gríðarleg og afleiðingarnar skelfilegar ef hroki ræður ríkjum. Við þurfum að leggja flokkspólitík til hliðar og hlusta, hlusta hvert á annað, hlusta á þjóðina og sérfræðinga innan og utan okkar raða. Við megum aldrei gleyma því af hverju við erum hér. Við erum hér til að hlusta og þjónusta. Við ætlum að skapa þjóðinni betra samfélag þar sem réttlæti og stöðugleiki ræður ríkjum.

Ég geri þær kröfur til ráðamanna þjóðarinnar að þeir hlusti á viðvörunarbjöllur. Á árunum 1999 til 2012 hafa OECD og AGS gert 21 úttekt á íslensku efnahagslífi og sett fram fjölmargar athugasemdir og aðfinnslur um húsnæðisstefnu stjórnvalda, en þar hefur Íbúðalánasjóður meira eða minna verið í brennidepli. Sérfræðingar þessara tveggja stofnana hafa sett fram rökstuddar áhyggjur sínar af þróun mála og komið með fjölmargar tillögur í þeim efnum. Frá árinu 2003 hafa þessar tvær stofnanir talið brýna þörf í úrbótum í málefnum Íbúðalánasjóðs og lögðu sérfræðingar stofnana fram tillögur að gagngerum breytingum á sjóðnum og hugmyndir að útfærslu. Síðan þá hafa stofnanirnar margítrekað áhyggjur sínar og hvatt til tafarlausra breytinga. Sérfræðingar innan þeirra raða vöruðu meðal annars við óeðlilegum og skaðlegum áhrifum á efnahagslífið, áhrifum sjóðsins á þenslu í hagkerfinu, áhættu ríkissjóðs og beinum afskiptum stjórnmálamanna af lánastarfsemi, samkeppni við einkareknar fjármálastofnanir og algjörlega máttlaust eftirlit.

Hæstv. forseti. Það hlýtur að vera orðið ljóst að okkur ber að hlusta á viðvörunarbjöllur frá hæfum erlendum sérfræðingum og hætta að láta þjóðarstoltið flækjast fyrir okkur. Við verðum að leita allra leiða til að gera vel. Það á að vera sama hvaðan gott kemur, og munum að glöggt er gests augað.

Þess vegna veldur það mér miklum áhyggjum hvert viðhorf hæstv. forsætisráðherra, Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, er til þessara erlendu stofnana.

Með leyfi forseta ætla ég að fá að endurtaka orð hæstv. forsætisráðherra sem hann lét falla í fréttum Ríkissjónvarpsins þann 28. júní sl. um gagnrýni OECD og AGS á frumvarp um aðgerðir í þágu skuldsettra heimila. Þar sagði hann m.a.:

„Hvað hins vegar OECD varðar og Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og allar þessar stofnanir hef ég ekki miklar áhyggjur af því hvað hinum og þessum skammstöfunum finnst um þetta frumvarp.“

Ný ríkisstjórn hefur ekki farið leynt með þjóðmenningarlegar áherslur sínar, en í stefnuyfirlýsingu hennar kemur fram að íslensk þjóðmenning skuli vera í hávegum höfð. Í yfirlýsingunni var lítil sem engin áhersla á að efla samstarf við aðrar Evrópuþjóðir. Þá er líka fullkomlega ljóst, af orðum hæstv. forsætisráðherra, að hann ber ekki mikla virðingu fyrir skoðunum virðulegra erlendra stofnana á borð við OECD og AGS. Af þessu að dæma get ég ekki annað en haft áhyggjur af viðhorfi hæstv. ráðherra í ljósi sögunnar og þess áfellisdóms á íslenskt stjórnkerfi sem skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis um Íbúðalánasjóð felur í sér.

Ég vona að við séum raunverulega tilbúin til að læra af reynslunni, leggja hrokann og egóið til hliðar og fagna gagnrýni og tillögum innlendra jafnt sem erlendra stofnana. Viðurkennum í eitt skipti fyrir öll vanmátt okkar til að vita alltaf best og sýnum þá dómgreind sem þjóðin á skilið. Gleymum því aldrei að í auðmýktinni felst styrkurinn og í samvinnunni felst árangurinn.