144. löggjafarþing — 20. fundur,  16. okt. 2014.

opinber fjármál.

206. mál
[12:41]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er sammála hæstv. ráðherra í því að það er ekki ætlunin með þessu frumvarpi að taka pólitískt ákvörðunarvald af meiri hluta á hverjum tíma. Það er mjög mikilvægt einmitt að við séum sammála um þann þátt. Það verður áfram þannig að ríkisstjórnir geta verið með ólíkar áherslur og geta beitt ríkisfjármálunum með ólíkum hætti á ólíkum tímum.

Hitt er aftur annað mál að eftir að búið er að leiða frumvarpið í lög er mjög sérkennilegt ef grunnþáttur í hagstjórnarstefnunni eru stórfelldar aðgerðir eins og skuldaniðurfellingin, svo við höldum nú áfram með það dæmi, sem fellur á fjórum af fimm töluliðum í viðmiðinu um sjálfbærni ríkisútgjalda í 6. gr. Það er veikleikinn sem ríkisstjórnin stendur frammi fyrir.

Ég ítreka líka það sem ég sagði áðan, þessi ríkisstjórn stendur ekki við gerða samninga. Hún skerðir framlög sem ætlað er að standa undir lögbundinni þjónustu án þess að breyta lögum um þá þjónustu sem viðkomandi stofnunum er skylt að veita og hún tekur ekki á sig ábyrgð af ríkisrekstri í botnlausu tapi, eins og t.d. rekstri Íbúðalánasjóðs sem ég tók dæmi af áðan. Það hlýtur að vera verkefni ríkisstjórnar á hverjum tíma að setja fram einhverja heildarstefnu um slíkan rekstur en skella ekki bara ábyrgðinni á stjórnarmenn úti í bæ sem bera persónulega fébótaábyrgð á rekstri Íbúðalánasjóðs, en svo eru ráðherrarnir ábyrgðarlausir og hirða ekki einu sinni um að koma með útfærðar úrbótatillögur.