144. löggjafarþing — 20. fundur,  16. okt. 2014.

opinber fjármál.

206. mál
[14:04]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég fagna mjög þessu frumvarpi. Eins og kom fram í máli ráðherra og í umræðunum hefur verið unnið að þessu ansi lengi, fleiri hafa komið að málum en einn hæstv. ráðherra og menn úr fleiri en einum stjórnmálaflokki. Ég vona að sem flestir telji sig eiga eitthvað í þessu máli. Ég vona að umræðan í hv. þingnefnd sem og í þingsal verði málefnaleg og uppbyggileg sem mér sýnist hún að stærstum hluta og kannski alfarið hafa verið. Markmiðin eru mjög háleit og það skiptir miklu að við séum meðvituð um að um leið og við segjum að við viljum vera á einhverjum þeim stað sem aðrar þjóðir eru, þjóðir sem við viljum bera okkur saman við, er grunnforsendan sú að við náum aga í ríkisfjármálum. Það er fullkomlega útilokað að ná árangri og stöðugleika ef ekki er agi í ríkisfjármálum og ekki bara í ríkisfjármálum heldur í opinberum fjármálum.

Ég held að allir stjórnmálaflokkar og flestir stjórnmálamenn tali fyrir stöðugleika, tali fyrir því að við getum haft hlutina eins og í þeim löndum sem við viljum bera okkur saman við. Þá er verkefnið: Hvernig komum við því verklagi á í opinberum fjármálum að það tryggi aga sem er forsendan fyrir stöðugleika? Við erum svo lánsöm að við þurfum ekkert að finna upp hjólið. Það var ekki mikið í umræðunni en þann 26.–28. mars 2012 fór þáverandi fjárlaganefnd í vinnuferð og heimsótti helstu stofnanir sænska ríkisins, þær sem komu að opinberum fjármálum og fjárlagagerð sérstaklega. Eftir þá heimsókn liggja fyrir ákveðin gögn sem ég hvet alla hv. þingmenn til að kynna sér því að þetta er kjarnyrtur og knappur texti sem tekur á flestum þáttum.

Ég ætla að lesa aðeins upp úr minnispunktunum þar sem raktar eru helstu niðurstöður úr Svíþjóðarferðinni:

1. Það var samstaða um það meðal allra stjórnmálaflokka og embættismanna í Svíþjóð að koma í veg fyrir að bankakreppa eins og var fyrir 20 árum endurtæki sig. — Ég vek athygli á því að það eru ekki bara stjórnmálamenn, það eru líka embættismenn sem talað er um þarna. Það hefur verið algerlega vanmetið hvað þeir hafa mikil völd hér á landi eins og í öðrum lýðræðisríkjum sem við berum okkur saman við.

2. Til staðar eru laga- og verklagsreglur sem taka heildstætt á öllum þáttum opinberra fjármála og fjármálastöðugleika. Fjárlagafrumvarp er heildstætt og gegnsætt. Allar laga- og reglugerðarbreytingar sem nauðsynlegar eru til að forsendur frumvarpsins nái fram að ganga eru birtar samhliða frumvarpinu.

3. Stefnan er sett af ríkisstjórn, ekki af einstökum ráðuneytum eða stofnunum, heldur svokölluð „top-down-aðferð“ við fjárlagagerð. — Ég held að þetta sé þáttur sem við þurfum að ræða nokkuð. Þegar maður skoðar þróunina í opinberum fjármálum, og sérstaklega í ríkisfjármálum, er ég ekki viss um að það samræmist þeim áherslum sem viðkomandi ríkisstjórnir hafa sagst hafa. Þrátt fyrir að við kjósum hér reglulega, þrátt fyrir að stjórnmálaflokkar komist að með áherslur sínar og kjósendur kjósi eftir því hvað þeir telja rétt er ekki sjálfgefið að það endurspeglist í raunverulegri stefnu ríkisstjórnar sem er fjárlögin. Ég hef svo sem oft farið yfir það, til dæmis varðandi undanfarin ár og kannski síðasta kjörtímabil, að þrátt fyrir að talað hafi verið um að leggja ætti alla áherslu á að vernda grunnþjónustu og setja fjármagn í það þá endurspeglast það ekki í fjárlagaheimildum eða útgjöldum einstakra stofnana. Ég hef oftsinnis farið yfir það.

Það er sama hvar við erum í stjórnmálum, sama hvaða stjórnmálaskoðanir við höfum, ég held að þetta sé eitthvað sem við erum sammála um að við viljum helst ekki sjá gerast. Við finnum það líka að þrátt fyrir að samstaða virðist í þjóðfélaginu, og jafnvel innan hv. Alþingis, um ákveðna forgangsröðun er mjög erfitt að koma henni fram í reynd. Jafnvel þó að það sér yfirlýst stefna viðkomandi stjórnmálaafla, stjórnmálaflokka eða ríkisstjórna, er ekki eins auðvelt og maður mundi ætla að koma því í framkvæmd. Það virðist vera að ýmislegt sé á sjálfstýringu.

4. Einfaldar fjármálareglur eru einkenni á umfjöllun um ríkisfjármál. Þær eru:

a. Markmið um afgang af ríkisfjármálum sem nemur ákveðnu hlutfalli af landsframleiðslu miðað við hagsveiflu. Nú í nokkur ár hefur markmiðið verið 1% afgangur.

b. Útgjaldaþak til þriggja ára skipar 27 málaflokka ríkissjóðs. Undantekning er vaxtagjöldin sem eru ekki með þaki enda er bókhaldið á greiðslugrunni. Þakið er sett hærra en sjálf fjárlögin og skapar þannig varasjóð ef hagrænar aðstæður valda hækkun útgjalda.

c. Sveitarfélögin verða að vera rekin með afgangi óháð hagsveiflum. Ef uppgjör er með halla þá eru gefin þrjú ár til að ná rekstrarafgangi sem nemur hallanum.

5. Lagaramminn leggur áherslu á langtímahugsun þrátt fyrir að fjárlög séu aðeins til eins árs í senn.

a. Á vorþingi er lagt fram frumvarp til ríkisfjármálastefnu. Þar er meðal annars að finna útgjaldaþak á málaflokki til þriggja, fjögurra ára. Þar er einnig að finna tekjuáætlun til jafnlangs tíma.

b. Með reglulegum hætti eru gefnar út skýrslur um sjálfbærni ríkisfjármála til margra ára og áratuga.

c. Ríkisendurskoðun og óháðar nefndir hagfræðinga gefa út álit á forsendu ríkisfjármálastefnunnar og fjármálastöðugleika.

6. Fjárlög takmarka mjög allar breytingar á frumvarpi til fjár- og fjáraukalaga. Stjórnarandstaðan getur ekki lagt til breytingar nema þá komi alveg nýtt fjárlagafrumvarp sem væri innan fjármálareglna. — Ef við værum að fara í það umhverfi værum við auðvitað að sjá gríðarlega mikla breytingu frá því sem nú er.

Hvaða leið sem við förum þá vona ég að við séum sammála um að betra væri ef við legðum meiri áherslu á að ræða stóru málin, stóru útgjaldaflokkana. Þó að lágu upphæðirnar séu mikilvægar þá er ekki gott ef við ræðum ekki skóginn af því að við erum alltaf að ræða um trén.

Ég held að flest í þessu frumvarpi eða allt sé í anda þess sem frændur vorir Svíar gera. Það sama á væntanlega við um önnur Norðurlönd og fleiri lönd sem við viljum bera okkur saman við. Það er enginn vafi á því að ef þetta frumvarp væri samþykkt óbreytt væri það mjög í áttina að því sem þar er um að ræða. En eðli málsins samkvæmt þurfum við að fara yfir einstaka þætti því að þrátt fyrir að mikilvægt sé að læra af öðrum þjóðum þurfum við að taka mið af aðstæðum hér því að þær eru ekki alveg eins á milli landa.

Ég kemst ekki yfir allar þessar greinar sem eru í frumvarpinu í þessari stuttu ræðu en þó vildi ég tæpa á nokkrum.

Í 4. gr. er nefnd fjármálastefnan sem fjármálaráðherra leggur fram í formi þingsályktunartillögu svo fljótt sem auðið er en eigi síðar en samhliða framlagningu næsta frumvarps til fjárlaga. Það væri hins vegar spurning, og það getur vel verið að það muni taka tíma því að um miklar breytingar væri að ræða, hvort æskilegra væri að þetta mundi jafnvel gerast fyrr. Um leið og fjárlögin eru komin munu þau yfirskyggja aðra þætti og spurning hvort ekki væri gott að ræða hluti eins og fjármálastefnuna á vormánuðum.

Í 5. gr. er gert ráð fyrir því að eigi síðar en 1. apríl ár hvert leggi ráðherra fyrir Alþingi tillögu til þingsályktunar um fjármálaáætlun til næstu fimm ára hið skemmsta. Ef þetta er gert á hverju ári, þó að það sé til fimm ára, þá er það svo sannarlega tengt, fjármálaáætlun og fjármálastefnan.

Í 6. gr. er farið yfir grunngildi sem eru afskaplega mikilvæg, þ.e. sjálfbærni, varfærni, stöðugleiki, festa og gagnsæi. Það er útgangspunktur sem við ættum að ná góðri samstöðu um að vinna eftir.

Í 7. gr. er farið yfir skilyrði fjármálastefnu og fjármálaáætlunar. Þar er talað um að heildarjöfnuður yfir fimm ára tímabil skuli ávallt vera jákvæður og árlegur halli ávallt undir 2,5% af landsframleiðslu. Nú veit ég ekki hvort það sé raunhæft og mætti fara yfir það að gera strangari kröfur en þetta. Ég vek þó athygli á að hjá frændum vorum Svíum er ávallt gert ráð fyrir að fara ekki undir 1% afgang af vergri landsframleiðslu.

Síðan er einn þáttur sem við verðum að fara vel yfir og það er 2. gr. í 7. gr.: Að heildarskuldir, að frátöldum lífeyrisskuldbindingum og viðskiptaskuldum og að frádregnum sjóðum og bankainnstæðum, séu lægri en nemur 45% af vergri landsframleiðslu. Þarna eru teknar frá lífeyrisskuldbindingarnar. Eins og hæstv. ráðherra fór yfir stöndum við vel, þrátt fyrir að við séum með alvarlega stöðu þegar kemur að lífeyrisskuldbindingum hins opinbera, miðað við aðrar þjóðir. Hins vegar eru lífeyrisskuldbindingar bara skuldir eins og allt annað. Við þurfum að greiða lífeyrisskuldbindingar, það er engin undankomuleið, eftir því sem ég best veit, hvað það varðar.

Á Íslandi verður greiðsluþrot hjá B-deildinni 2024 ef ég man rétt, og þá þarf ríkissjóður að greiða sem nemur 20 milljörðum á hverju ári í 10 ár, síðan fara þær greiðslur lækkandi. Því eru engin málefnaleg rök fyrir því að halda því fyrir utan reikningana eða markmiðin. Við þurfum að fara yfir það. Það getur vel verið að þetta sé þá of bratt, að ætla að ná heildarskuldunum niður, ef lífeyrisskuldbindingarnar eru með þessum hætti. En ég held að þróunin hljóti að verða sú, og ekki bara hjá okkur heldur annars staðar, að þegar menn tala um skuldir ríkisins og hins opinbera þá sé alltaf verið að tala um lífeyrisskuldbindingarnar líka. Við þurfum að setja okkur markmið hvað það varðar. Þær skuldbindingar eru alveg eins og aðrar skuldir, þær hafa þann eina galla að það þarf að greiða þær, annars væri í fínu lagi með þær; og svo sannarlega mun það gerast á Íslandi eins og annars staðar. Þar af leiðandi þurfum við í langtímaáætlunum okkar að gera ráð fyrir þeim, sýna þær í reikningum okkar og gera áætlun um það hvernig við ætlum að greiða þær niður.

Í 26. gr. er talað um fjáraukalögin. Fljótt á litið sýnist mér þetta ekkert ósvipað því og við sjáum núna, þ.e. að ráðherra er heimilt, ef þess gerist þörf, að leita aukinna fjárheimilda í frumvarpi til fjáraukalaga til að bregðast við tímabundnum, ófyrirséðum og óhjákvæmilegum útgjöldum innan fjárlagaársins, enda hafi ekki verið unnt að bregðast við þeim með úrræðum sem tilgreind eru í lögum þessum.

Staðreyndin er sú að þrátt fyrir að þetta sé hugmyndin í lögunum í dag er þetta mjög frjálslegt. Það er plagsiður í opinberum fjármálum á Íslandi að menn setja hluti í fjáraukalög — hafa gert það um áratugaskeið — sem erfitt er að halda fram að séu algerlega ófyrirséð útgjöld eða óvænt útgjöld. Það er grunnurinn að agaleysinu, það eru fjáraukalögin. Þó að textinn standi svona þá er framkvæmdin öðruvísi.

Í 27. gr. segir líka að hver ráðherra beri ábyrgð á og hafi virkt eftirlit með framkvæmd fjárlaga á sínu málefnasviði. Svipuð setning er í gildandi lögum en það breytir því ekki að í framkvæmd er það ekki með þeim hætti. Annars tækjum við allt öðruvísi á því þegar farið er fram úr á einstaka málefnasviðum. Ég ætla ekki að halda því fram að ríkisstjórnir undanfarinna áratuga hafi verið algerlega ábyrgðarlausar, ég er ekki að segja það, en við tökum ekki á þessu eins og kveðið er á um, ekki eins og hver og einn, í þessu tilfelli ráðherra, beri pólitíska ábyrgð á umframkeyrslu í sínum málaflokki.

Eitt er að setja lagatextann, annað er að sjá til þess að farið sé eftir honum. Við þurfum ekki bara lagabreytingar, við þurfum líka viðhorfsbreytingu og við þurfum samstöðu. Við þurfum ekki bara samstöðu milli okkar sem erum hér á þinginu til að breyta þessu, við þurfum líka samstöðu meðal embættismannanna. Þeir verða að vera með í þessu. Ég ætla ekki að fara að segja fjölmiðlum hvað þeir eigi að gera en ég tel líklegast að við næðum þeim árangri sem ég held að flestir ef ekki allir eru sammála um ef vitundarvakning verður líka hjá fjölmiðlum og menn nálgist opinber fjármál af meiri ábyrgð en gert er núna. Það þýðir breytta umræðu og þá kannski helst í fjölmiðlum. Við setjum það ekki í lög en vonandi verður það.