144. löggjafarþing — 20. fundur,  16. okt. 2014.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

17. mál
[17:48]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Nú vandast málið. Hæstv. forseti er að gefa mér orðið til að flytja mína seinni ræðu í þessari umræðu. Ég er í hópi þeirra sem hafa óskað eindregið eftir viðveru hæstv. heilbrigðisráðherra og þótt fleiri ráðherra væri og finnst enginn sérstakur sómi að því að þegar þingið er að ræða stórt og afdrifaríkt mál af þessu tagi dögum oftar skuli enginn einasti hæstv. ráðherra sjást á ráðherrabekk, enginn einasti, ekki einu sinni þótt þeir séu margbeðnir um það.

Þó gegna ráðherrar skyldum gagnvart þinginu, þeir eiga hér setu hvort sem þeir eru kosnir sem þingmenn eða ekki vegna þess að þeir hafa þingskyldum að gegna. Það er líka sterk hefð að þegar eindregnar og vel rökstuddar óskir koma fram um viðveru ráðherra í umræðum sé orðið við þeim. Mér finnst satt best að segja afar dapurlegt að verða vitni að því hér að nú orðið tala menn eins og það sé bara fráleit ósk að biðja um ráðherra í þingsalinn. Það er helst að skilja að ráðherrar séu svo merkilegir menn að þeir hafi annað og betra við tímann að gera en að koma til þingfundar.

Mér er heldur tregt um, herra forseti, að fara að nota þessa seinni ræðu mína áður en orðið hefur verið við óskum um það (Forseti hringir.) að ráðherrarnir komi til orðaskipta við okkur þannig að ég sé ekki dauður í umræðunni eins og það heitir á góðu og gildu þingmáli.