145. löggjafarþing — 20. fundur,  14. okt. 2015.

störf þingsins.

[15:04]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf):

Hæstv. forseti. Þrátt fyrir að hæstv. forsætisráðherra hafi komið af fjöllum í gær í fyrirspurnatíma segja fjölmiðlar að gengið hafi verið frá kaupum á nýjum ráðherrabíl fyrir ráðuneytið af gerðinni Mercedes Benz S-Class. Í fréttaflutningi kom fram að um væri að ræða mest selda lúxusbíl í sínum flokki í heiminum í dag og væri hann eftirsóttur meðal þjóðhöfðingja. Fram kom að listaverð bifreiðarinnar væri um 22 millj. kr. en samkvæmt heimildum fjölmiðla fengi ráðuneytið bílinn á undir 13 millj. kr. Það er full ástæða fyrir almenning til að gleðjast yfir þessum reyfarakaupum og það er líka gleðiefni að fleiri ráðherrar hafi fengið fína bíla því að fjölmiðlar flytja okkur einnig fréttir af því að á þessu kjörtímabili hafi utanríkisráðherra, fjármálaráðherra og sjávarútvegsráðherra fengið nýjan bíl. Samanlagður kostnaður vegna kaupa þessara bifreiða nemur um 35,5 milljónum. Auðvitað vill almúginn í þessu landi að þeir fínu menn sem hann hefur treyst til að fara með vald og fé fyrir sína hönd aki um á fínum bílum. En það er ekki alveg eins gott til þess að vita að á sama tíma skortir fé í hjálpartækjamiðstöð sem Sjúkratryggingar Íslands reka, en hún hefur meðal annars það hlutverk að sjá fötluðu fólki fyrir nauðsynlegum hjálpartækjum sem það á rétt á lögum samkvæmt og er lykilforsenda þess að það geti tekið þátt í lífinu og samfélaginu eins og við hin. Til mín hefur leitað fatlað fólk og aðstandendur fatlaðra barna sem hafa verið í mjög miklum vandræðum vegna langs biðtíma eftir nauðsynlegum hjálpartækjum og viðgerðum á þeim.

Hæstv. forseti. Það er mjög ánægjulegt að ekki skuli skorta fé í hjálpartækjamiðstöð Stjórnarráðsins og ég ætla að leyfa mér að vona að sú góða þjónusta sem ráðherrarnir okkar fá þar verði þeim hvatning til þess að búa líka þannig að hjálpartækjamiðstöð Sjúkratrygginga að fatlað fólk þurfi ekki að bíða vikum saman eftir bráðnauðsynlegum hjálpartækjum.

Síðan vil ég nota tækifærið að lokum og minna á átakið Heilabrot sem ungmennaráð UNICEF á Íslandi stendur fyrir. Það er þess vegna sem ég klæðist þessum forlátabol í dag en þetta átak er til að minna á og vekja athygli á því mikla úrræðaleysi sem er í geðheilbrigðismálum ungra barna og ungmenna á Íslandi. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)


Efnisorð er vísa í ræðuna