146. löggjafarþing — 20. fundur,  31. jan. 2017.

stjórnmálaástandið í Bandaríkjunum.

[14:55]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Nýr forseti Bandaríkjanna virðist ætla að efna öll sín kosningaloforð. Það eru ekki góðar fréttir fyrir Bandaríkjamenn og ekki heldur fyrir önnur ríki. Ef honum verður ekki veitt hörð mótspyrna munu aðgerðir í hans anda, áherslur og ákvarðanir, hafa mikil áhrif hér á landi. Það er alveg öruggt að þau áhrif verða neikvæð. Fordómar, kvenfyrirlitning, ógnanir og kynþáttahatur eru þar meginstef. Donald Trump ætlar líka að afnema stuðning Bandaríkjamanna við aðgerðir gegn loftslagsmálum, beita sér gegn fóstureyðingum, auka vígbúnað og hervæðingu og rýmka reglur um byssueign.

Sú var tíðin að Wilson Bandaríkjaforseti beitti sér fyrir auknu samstarfi Evrópuþjóða til þess að reyna að stuðla að varanlegum friði. En Trump þrammar í þveröfuga átt. Er stefna hans líkleg til að bæta friðarhorfur? Nei, þvert á móti. Hann kyndir beinlínis undir ófriði. Hvað er hægt að gera til að stoppa hann af? Hvað þarf til svo snúa megi við sem fyrst lýðræðislegri kosningu í einu valdamesta ríki heims? Bandaríska þingið getur ákveðið að hætta að styðja forsetann. Líklegast er að mikið þurfi að ganga á svo til þess komi. Eina leiðin virðist vera að önnur lýðræðisríki og friðarsinnaðar þjóðir taki höndum saman og beiti sér gegn ríkisstjórn Donalds Trumps, hindri hans illu áform og leggi lýðræðisöflum í Bandaríkjunum lið við að koma vitinu fyrir þá sem nú fara þar með völd. Þar eigum við Íslendingar að tala algerlega tæpitungulaust líkt og hæstv. utanríkisráðherra gerði í morgun.

(Forseti (SJS): Forseti biðst velvirðingar á því að umræðuefnið virðist hafa farið þannig í tímatölvuna að hún blikkar stanslaust á rauðu ljósi. Það er sem sagt einhver tæknilegur vandræðagangur í því máli. (Gripið fram í.) Ég vona að þetta komist í lag.)