149. löggjafarþing — 20. fundur,  16. okt. 2018.

forvarnir.

[14:23]
Horfa

Þórunn Egilsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka málshefjanda, hv. þm. Sigurði Páli Jónssyni, fyrir að koma þessu mikilvæga máli á dagskrá. Eins og fram hefur komið eru forvarnir lykilatriði bættrar lýðheilsu og líklega besta fjárfesting samfélagsins inn í framtíðina. Í tengslum við þá umræðu langar mig til að vekja athygli á þingmáli sem við Framsóknarmenn og fleiri höfum lagt fram nokkrum sinnum undir forystu hv. þm. Willums Þórs Þórssonar.

Kjarni þess er endurgreiðsla virðisaukaskatts af vinnu manna við nýbyggingu og viðhald íþróttamannvirkis, af þjónustu vegna hönnunar eða við eftirlit með nýbyggingu eða endurbyggingu vegna viðhalds þess háttar húsnæðis, sem og af efniskaupum til slíkra framkvæmda.

Við þurfum ekki að fjölyrða um þjóðhagslegt mikilvægi íþróttahreyfingarinnar því að fjölmargar rannsóknir staðfesta forvarnagildi íþrótta. Þátttaka barna og unglinga í skipulögðu íþróttastarfi dregur úr líkum á hvers kyns frávikshegðun.

Nú er staða nokkurra sveitarfélaga þannig að þau halda að sér höndum við framkvæmdir við íþróttamannvirki. Þess vegna vil ég hvetja hæstv. ráðherra og ríkisstjórn alla til að kanna hvort hægt sé að koma til móts við sveitarfélögin í þessum málum. Þar sem góð íþróttaaðstaða er hefur það sýnt sig að fólk á öllum aldri nýtir sér hana, eldra fólk fyrri part dags, það yngra seinni part og svo í bland ef vill. Bæjarfélög hafa í samstarfi við embætti landlæknis unnið að verkefnum með góðum árangri sem snúa að lýðheilsu. Má þar helst nefna Heilsueflandi samfélag. Til viðbótar hafa Hafnarfjörður og Reykjanesbær gert samning um fjölþætta heilsurækt eldra fólks undir stjórn Janusar Gunnlaugssonar.

Í ljósi þess að færri komast að en vilja tel ég líklegt að svo yrði um allt land. Því spyr ég hvort uppi séu áform um að festa þessa nálgun í sessi. Hreyfing getur verið þáttur í fjölbreyttum forvörnum og á öllum aldursstigum haldið ungmennum frá neyslu, stuðlað að betra geðheilbrigði og komið í veg fyrir ýmis heilbrigðisvandamál fólks á öllum aldri. Auðvitað eru forvarnir flókið og viðamikið verkefni, en eins og við segjum í minni sveit: Það má ganga margt úr sér á fyrri stigum.