149. löggjafarþing — 20. fundur,  16. okt. 2018.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

155. mál
[15:15]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Forseti. Hvort sem hæstv. forsætisráðherra gefur mikið fyrir það eða ekki ætla ég bara að ítreka það sem ég sagði hér áður, þetta var meginrökstuðningurinn fyrir því að ráðuneytin voru sameinuð í eitt ráðuneyti á sínum tíma þegar hæstv. forsætisráðherra sat í ríkisstjórn. Ég tel að það hafi verið mjög skynsamleg ráðstöfun á þeim tímapunkti. Ég horfði á og heyrði innan úr ráðuneytinu að það gekk mjög vel í samstarfi ráðuneytisins með einn ráðherra. En þegar ráðherrarnir urðu tveir reyndist vera einhver samskiptavandi milli ráðherranna sem olli því að samstarf milli einstakra sviða ráðuneytisins var ekki eins gott. Það tókst hins vegar mjög gott samstarf með mér og þáverandi hæstv. heilbrigðisráðherra, Óttari Proppé, ekkert vandamál þar, þvert á móti sáum við einmitt allan þann fjölda tækifæra sem þarna eru. Við höfum ótal dæmi úr skandinavískri stjórnsýslu um að ráðuneyti séu rekin með fleiri en einum ráðherra til þess einmitt að ná fram þessari samlegð en um leið að veita skarpa pólitíska forystu í einstökum málaflokkum. Það veldur mér bara vonbrigðum að það sé gefist svona auðveldlega upp fyrir þessu verkefni.