149. löggjafarþing — 20. fundur,  16. okt. 2018.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

155. mál
[15:23]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir kynninguna á málinu. Rekstur samfélags snýst auðvitað um krónur og aura, ekki eingöngu en klárlega líka, og þess vegna langar mig aðeins að minnast þess sem gerðist í ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur á árunum eftir hrun. Þá voru ráðuneyti sameinuð og stækkuð og þess vegna fengu ráðherrar viðbótaraðstoðarmenn sér til halds og trausts, vegna þeirra miklu verkefna sem þá voru undir. Núna þegar ráðuneytum fjölgar mikið, sem og áður, telur hæstv. forsætisráðherra enn þá þörf á því að hver einasti ráðherra Íslands hafi tvo aðstoðarmenn fyrir utan upplýsingafulltrúa og tímabundna verkefnisstjóra og hvaðeina sem við verðum vitni að þessa dagana?