149. löggjafarþing — 20. fundur,  16. okt. 2018.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

155. mál
[15:28]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Ég vil víkja hér að kaflanum um málefni mannvirkja í þessari þingsályktunartillögu. Þar kemur fram að Mannvirkjastofnun eigi að flytjast til félagsmálaráðuneytisins eins og komið hefur fram hér.

Rétt er að skoða í því sambandi hlutverk þessarar mikilvægu stofnunar. Mannvirkjastofnun fer með yfirumsjón byggingarmála á Íslandi. Stofnunin fer m.a. með undirbúning reglugerða og gerð leiðbeininga á sviði byggingarmála, aðgengismál, löggildingu hönnuða og iðnmeistara, útgáfu starfsleyfa fyrir byggingarstjóra og faggiltar skoðunarstofur á byggingarsviði.

Stofnunin sinnir markaðseftirliti með byggingarvörum og tekur þátt í gerð íslenskra og evrópskra staðla á sviði byggingarmála. Mannvirkjastofnun hefur eftirlit með framkvæmd laga nr. 75/2000, um brunavarnir, auk laga nr. 40/2015, um meðferð elds og varnir gegn gróðureldum, og þá þætti sem um brunavarnir koma fram í öðrum lögum sem stofnunin hefur eftirlit með, svo sem lögum um mannvirki, lögum um byggingarvörur og í reglugerðum settum á grunni þeirra.

Þessi starfsemi fer fram á eldvarnasviði stofnunarinnar. Eldvarnasvið Mannvirkjastofnunar hefur einkum eftirlit með brunavarnaákvæðum byggingarreglugerðar. Þar er unnið að samræmingu á afgreiðslu leyfisveitenda á kröfum til brunavarna og samræmingu á eldvarnaeftirliti um land allt í samráði við viðkomandi stjórnvöld. Þá er á sviðinu unnið að vottun á brunaeiginleikum byggingarefna og útgáfu á starfsleyfum þjónustuaðila auk þess sem haldið er utan um gagnagrunn á sviðinu.

Eldvarnasvið fer einnig með yfirumsjón með slökkvistarfi sveitarfélaga í þeim tilgangi að tryggja virkt slökkvistarf á landinu öllu. Stofnunin sér um eftirlit með því að slökkvilið séu þannig skipulögð, búin tækjabúnaði og mönnuð mannskap sem hafi nægilega menntun og þjálfun til að sinna hlutverki sínu og þau ráði við þau verkefni sem þeim eru falin með lögum um brunavarnir. Þetta er m.a. gert með úttektum á slökkviliðum, vatnsveitum og búnaði slökkviliða. Brunamálaskólinn sem sér um nám fyrir slökkviliðsmenn og eldvarnaeftirlitsmenn er starfræktur innan sviðsins. Á sviðinu er einnig unnið með sveitarfélögunum við gerð brunavarnaáætlana en Mannvirkjastofnun samþykkir þær samkvæmt 13. gr. laga um brunavarnir.

Rafmagnsöryggissvið Mannvirkjastofnunar hefur yfirumsjón með rafmagnsöryggismálum á Íslandi, skoðunum á raforkuvirkjum, neysluveitum, öryggisstjórnunarkerfum rafveitna og rafverktaka og markaðseftirliti raffanga. Auk þess löggildir sviðið rafverktaka, annast skráningu og rannsóknir á slysum og tjóni af völdum rafmagns og annast útgáfu á kynningar- og fræðsluefni er varðar rafmagnsöryggi.

Hlutverk rafmagnsöryggissviðs er að hafa eftirlit með vörnum gegn hættu og tjóni af raforkuvirkjum, neysluveitum, rafföngum og truflunum af völdum starfrækslu þeirra. Helstu verkefni rafmagnsöryggissviðs eru því eftirfarandi: Öryggi raforkuvirkja og neysluveitna, markaðseftirlit raffanga, samning og túlkun reglna um rafmagnsöryggi, fræðsla um rafmagnsöryggi, löggilding rafverktaka og rannsókn og skráning slysa og tjóns af völdum rafmagns.

Herra forseti. Ég hef nú rakið helstu verkefni á sviði Mannvirkjastofnunar. Ég skil ekki hvað liggur að baki því að það verksvið sem ég hef hér lýst og Mannvirkjastofnun hefur með höndum skuli nú vera flutt undir félagsmálaráðuneytið. Ég get ekki séð að þessi málefni eigi nokkuð sameiginlegt með félagsmálum og málefnum barna. Ef það er svona nauðsynlegt að flytja þennan málaflokk frá umhverfisráðuneytinu er eðlilegt að flytja hann undir samgönguráðherra eða iðnaðarráðherra. Ekki verður séð að fagleg sjónarmið liggi að baki þessari tillögu þegar kemur að þessum málaflokki, það verður bara að segjast eins og er. Ég tel að Mannvirkjastofnun sé hér notuð sem skiptimynt í pólitískum hrókeringum ríkisstjórnarflokkanna, skiptimynt í að jafna valdahlutföll Framsóknarflokksins, Vinstri grænna og Sjálfstæðisflokksins og er það miður.

Undir þetta skrifar hæstv. forsætisráðherra sem í orði hefur talað um að ríkisstjórn hennar leggi áherslu á góð vinnubrögð. Þessi gjörningur er allt annað en góð vinnubrögð.