149. löggjafarþing — 20. fundur,  16. okt. 2018.

heilbrigðisþjónusta o.fl.

185. mál
[19:42]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir góða umræðu og skoðanaskipti um frumvarp það sem hefur verið mælt fyrir.

Ég er með nokkrar vangaveltur, í fyrsta lagi það sem er rauður þráður í gegnum þetta mál, að hér erum við í raun og veru að hluta til að gera það sem hv. þm. Jóhann Friðrik Friðriksson bendir á, að festa í sessi framkvæmd sem hefur verið við lýði í þó nokkurn tíma. Þó verður ekki hjá því litið að horfa til þess að hér svífur líka ákveðinn vandi yfir vötnunum í því hvernig við viljum sjá meginlínur í þjónustunni taka breytingum, í fyrsta lagi þann þátt sem lýtur að því að það er ekki bara aldur sem miðað er við þegar forgangsraðað er í tiltekin úrræði, heldur miklu frekar er það þörf og mat á hverjum tíma. Það má segja að það sé í vissum skilningi barn síns tíma að láta aldurinn einan duga sem mælikvarða í þessum efnum.

Hins vegar vil ég segja hér, vegna þess að það hefur komið fram í máli allnokkurra þingmanna, að framtíðarsýn eldra fólks, heilbrigðisþjónustunnar sjálfrar, sveitarfélaga og ekki síður heilbrigðisyfirvalda er á þann veg að það sé sífellt aukin þörf fyrir sveigjanleg úrræði og, eins og hv. þm. Ólafur Þór Gunnarsson nefndi, verður aukin þjónusta heim vaxandi krafa. Það er sú krafa dagsins sem við verðum að bregðast við. Áherslan á fjölgun dagdvalarrýma er ekki bara orð á blaði heldur líka raunverulega sýnileg í áherslum stjórnvalda og er með það að markmiði að róa í sömu átt og samtök eldri borgara hafa ítrekað bent á, krafan um að geta búið heima eins lengi og mögulegt er og fólk óskar, þ.e. að þjónustan kallist á við þá þörf en byggi ekki á þörfum kerfisins ef svo má segja og þess vegna verði áherslan á utanstofnanaþjónustu aukin. Þetta sjáum við ekki bara í þjónustu við eldri borgara heldur líka í geðheilbrigðismálum og í fleiri málaflokkum sem við aðeins vikum að fyrr í dag þegar við vorum að ræða forvarnamál. Þetta er allt saman mjög sambærileg þróun.

Ég vil enn og aftur þakka nefndinni fyrir gott samstarf á síðasta þingi. Ég held að það sé mikilvægt að við höfum þennan möguleika, og sveigjanleika vil ég kalla það, í samstarfi milli þingsins og ráðuneytanna á hverjum tíma, að það sé gagnkvæmur skilningur á því að ef eitthvað þykir vanta í ferlið sem þarf til að fullnægja því að það skapist nægilegt traust um breytingar á löggjöf og þá þurfi maður að gefa þann tíma og treysta það samstarf og samráð sem nauðsynlegt er. Ég þakka fyrir jákvæð orð í þá veru og tel sjálf að breytingarnar sem hafa verið gerðar á málinu hafi verið verulega til góðs, en ekki síst það sem hefur verið búið skýrar um í orðalagi í greinargerð sem lýtur að samspili þeirra þjónustuúrræða sem hér eru lögfest annars vegar og hins vegar róttækum breytingum sem hafa orðið á löggjöfinni í þá veru að tryggja enn frekar einstaklingsmiðaða þjónustu, samanber lögin um notendastýrða persónulega aðstoð.

Hv. þm. Ólafur Þór Gunnarsson ræddi sérstaklega framlög vegna dagdvalar og dagþjálfunar. Eins og fram hefur komið í umræðum í fjölmiðlum að undanförnu hafa fyrirtæki í velferðarþjónustu lýst áhyggjum af stöðunni þar. Það er rétt að gera þinginu grein fyrir því að samningar vegna hjúkrunar- og dvalarrýma renna út um áramót en það er heimild til að framlengja þann samning um tvö ár. Viðræður standa yfir, en þetta er sannarlega ekki einfalt mál, ekki síst í ljósi þess að þjónustan er lifandi og tekur stöðugt breytingum. Viðræður um rammasamning um dagdvalarrými standa yfir og ég vænti þess að ef velferðarnefnd óskar eftir því að verða upplýst um framgang þeirrar vinnu eftir því sem þurfa þykir sé sjálfsagt að gera það þegar málin fara að skýrast.

Hv. þm. Guðjón Brjánsson spurði líka aðeins um kostnaðarmálin. Því er til að svara að hér er ekki gert ráð fyrir fjölgun rýma þannig að ekki er aukinn kostnaður innbyggður.

Að lokum er rétt að þakka fyrir góða umræðu og góðar undirtektir. Að mínu mati er mikilvægt að búa bæði þannig um að löggjöfin endurspegli raunverulega framkvæmd, það er nokkuð sem við eigum auðvitað alltaf að gera, en þar að auki geta glöggir lesendur veitt því athygli að hér eru ákveðnir tónar á ferð sem gefa fyrirheit um breyttar áherslur að því er varðar málefni eldra fólks.